138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[19:09]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum um tillögu til þingsályktunar um afturköllun ákvörðunar umhverfisráðherra um Suðvesturlínu. Ég styð þessa þingsályktunartillögu heils hugar, enda einn af flutningsmönnum hennar. Úrskurður ráðherrans felur það í sér að skoða eigi betur og rannsaka betur hvort fara eigi í sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar eða þeirra framkvæmda sem tengjast Suðvesturlínu.

Ákvæði í lögum um mat á umhverfisáhrifum er talsvert loðið og því ástæða til að taka það upp og skoða betur eins og felst í þingsályktunartillögu sem ég hef lagt fram hér á þingi og fjallar um að liðka fyrir erlendum fjárfestingum. Þau tilvik þegar þetta ákvæði á augljóslega við eru þegar framkvæmdir eru það tengdar að þær eru algerlega órjúfanleg heild. Dæmi eru t.d. framkvæmdir við Landeyjahöfn þar sem efni er tekið úr námu til að byggja höfn og til þess þarf að leggja vegi bæði að höfninni og eins að námunni. Þessi framkvæmd fór í sameiginlegt umhverfismat, enda nátengdar framkvæmdir.

Það sama er ekki upp á teningnum varðandi Suðvesturlínu enda varðar hún ekki eingöngu álver í Helguvík. Hún getur varðað hvað sem er. Hún varðar m.a. afhendingaröryggi til að geta eldað jólasteikina á Suðurnesjum á aðfangadag. Hvernig á að meta umhverfisáhrifin af því? Ég spyr, hæstv. forseti.

Þá tel ég jafnframt sem gamall sveitarstjórnarmaður að Skipulagsstofnun hafi varla átt skilið þá meðferð sem hún hlaut í þessari stjórnsýslumeðferð ráðherra, frú forseti. Allir sem starfað hafa á sveitarstjórnarstiginu þekkja það að Skipulagsstofnun vandar mjög til verka. Þar er mikið fagfólk á ferð sem síst af öllu slær af einhverjum formkröfum sem að skipulagsmálum snúa. Það er reynsla allra þeirra sem vinna í þessu kerfi og það er nákvæmlega það sem Skipulagsstofnun á að gera og það sem Skipulagsstofnun gerir. Þess vegna getur hæstv. ráðherra, frú forseti, ekki skýlt sér á bak við það að þessi úrskurður byggi á því að vandaða stjórnsýsluhætti beri að styrkja. Það stenst einfaldlega enga skoðun. Við þurfum að gæta að því að með þessum úrskurði er væntanlega brotin bæði meðalhófsreglan, jafnræðisreglan sem og málshraðareglan þannig að það er augljóst, frú forseti, að það er eitthvað annað sem liggur það að baki. Ég spyr: Hvers vegna koma þau rök ekki einfaldlega fram í málinu? Hvers vegna beitir hæstv. ráðherra sér ekki fyrir skoðunum sínum þar sem það á við? Hvers vegna er verið að skýla sér á bak við stjórnsýsluna þegar það er augljóslega ekki það sem hér er á ferðinni?

Ef ég má ímynda mér hvað farið hefur um huga hæstv. ráðherra, frú forseti, nú er það svo að stjórnarflokkarnir sem mynda þá ríkisstjórn sem hér ríkir eru einfaldlega ekki alveg sammála í þessum málaflokkum um það hvernig eigi að byggja upp íslenskt atvinnulíf og hvernig eigi að fara fram með virkjunarframkvæmdir. Hins vegar hafa þessir flokkar gert með sér samkomulag sem heitir stjórnarsáttmáli. Þeir hafa skrifað undir stöðugleikasáttmálann og þjóðhagsspá sem hefur verið gefin út í tíð núverandi ríkisstjórnar, svo það sé ítrekað og það sé ekki notuð sú lenska sem vinstri grænir nota í hverju einasta tilfelli sem þeir hafa eitthvað að fela að klína því á fyrri ríkisstjórn. Núverandi ríkisstjórn ber ábyrgð á þessu. Þar er mörkuð stefnan, mundi maður halda. Þar kemur fram í orði hvað ríkisstjórnin ætlar að gera. Framkvæmdin er hins vegar allt önnur. Á borði stenst ekki neitt af þessu. Það er ástæðan. Hæstv. ráðherra ætti, frú forseti, einfaldlega að segja skoðun sína upphátt. Ég tel að það sé þannig að hæstv. ráðherra vilji ekki álver, vilji ekki byggja upp íslenskt atvinnulíf með því að nýta auðlindir okkar, þar á meðal orkuna í iðrum jarðar. Hún um það, frú forseti, að hafa þá skoðun. Þá hefur maður ákveðna aðferð til að koma henni á framfæri. Maður misnotar ekki aðstöðu sína svo jaðri við valdníðslu til að lauma skoðunum sínum einhvern veginn að í málinu. Ég skil ekki ráðherra í ríkisstjórn Íslands sem hefur fulla burði til að tala hreint út, ráðherra hefur eyru þjóðarinnar, hefur vettvang til að koma skoðunum sínum á framfæri. Hvers vegna er það ekki gert hreint út, frú forseti? Þetta er algerlega ofvaxið mínum skilningi.

Atvinnustefna ríkisstjórnarinnar, sem ég ásamt fleiri þingmönnum reyndi að draga fram með töngum á sumarþinginu og ég sé fulla þörf á því að reyna að halda því áfram, liggur fyrir í orði en er allt önnur á borði. Þetta sannast í hverju málinu á fætur öðru. Umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra hafa talað í kross framan af sumrinu en allir eru sammála um að það eigi að fjölga störfum í landinu. Hvernig á að gera það? Ég spyr, hæstv. forseti. Ef við ætlum ekki að byggja á okkar styrkleikum, ef við ætlum ekki að byggja á því sem við kunnum, því sem við erum góð í þá veit ég ekki hvernig við ætlum að gera það, frú forseti.

Það er brýn nauðsyn á atvinnuuppbyggingu hér á landi. Erlendir fjárfestar hafa sýnt mikinn áhuga á að koma að verkefnum hér og þeir vilja flestir orkufrekan iðnað. Það er ekkert skrýtið vegna þess að við erum fremst í flokki í heiminum hvað varðar þekkingu á því sviði og getu til að virkja. Og ekki nóg með það, heldur erum við með umhverfisvæna orkugjafa. Það er það sem kemur til með að koma mannkyni best til langs tíma. Verkefnið sem við stöndum öll frammi fyrir er að byggja upp íslenskan efnahag. Það gerum við með því að treysta grunnstoðir okkar og byggja á þeim. Það er hlutverk stjórnvalda að skapa þau skilyrði að svo megi verða. Það þarf að fara eftir lögum og reglum. Að sjálfsögðu eiga stjórnmálamenn að hafa skoðanir, standa og falla með þeim, segja þær upphátt en ekki vera að laumast bakdyramegin í gegnum einhvern meintan áhuga á góðum stjórnsýsluháttum, frú forseti.

Ég tel mjög mikilvægt að menn skilji að þessi úrskurður ráðherrans sendi þau skilaboð til erlendra fjárfesta að íslenskum stjórnvöldum sé einfaldlega ekki treystandi til að standa við fyrri ákvarðanir. Þetta afskaplega sorglegt og ég vildi að það væri ekki svona. Það sér það hver maður sem les stöðugleikasáttmálann, þjóðhagsspá versus það að skoða ákvarðanir þær sem liggja á borðinu hvað varðar Suðvesturlínu og álver á Bakka sem og orkuskattana að þetta stenst enga skoðun. Hver er stefnan? Þetta verður að fara að komast á hreint. Íslenska þjóðin á heimtingu á að vita það vegna þess að það liggur mikið við. Það er atvinnulífið sem verður að komast af stað til að við komumst sem fyrst upp úr þeirri efnahagslægð sem við nú dveljum í. Það er grundvallaratriði. Þannig endurreisum við efnahaginn. Þannig komum við skuldsettum heimilum til aðstoðar. Það þýðir ekki að fara í aðgerðir til hjálpar skuldsettum heimilum ef ekki næst að byggja upp öflugt atvinnulíf. Þetta á að vera í forgangi og menn eiga að tala hreint út um það.

Jafnframt þarf að skilja að þessi ákvörðun hefur veruleg áhrif á möguleika okkar til framtíðar til að laða að erlenda fjárfesta til landsins vegna þess að það sem er eitt stærsta verkefni okkar nú er að byggja upp traust, traust á því að hér sé öflug ríkisstjórn sem standi við orð sín, traust á því að eitthvað sé að marka þær áætlanir og þá samninga sem ríkisstjórnin skrifar undir og traust á því að menn og aðilar sem koma inn með langtímafjárfestingar fái það ekki í bakið að ráðherrar skipti um skoðun, dragi ákvörðun til baka, setji á skatta sem engu lagi eru líkir og þykjast svo varla kannast við það eftir á þótt það liggi í loftinu að það eigi engu að síður að fara í slíkar framkvæmdir o.s.frv. o.s.frv. Traust er lykilatriði og traust er það sem verður að byggja á. Þeir þingmenn stjórnarflokkanna sem hafa mikinn áhuga á því að komast í nánara samstarf við erlenda aðila eins og t.d. Evrópusambandið, þar sem ég sé að hæstv. utanríkisráðherra er genginn í salinn, hljóta að átta sig á þessari staðreynd. Þeir hljóta að átta sig á því að það verður að vera einhver festa í íslenskri stjórnsýslu. Ég hef gríðarlegar áhyggjur af þessu atriði. Jafnframt hefur þessi úrskurður ráðherrans þær afleiðingar að þau skilaboð eru send út að ríkisstjórnin ætli sér ekki að standa við stöðugleikasáttmálann.

Frú forseti. Alvarlegast við þetta allt saman er að þessi úrskurður veldur enn meiri óvissu í íslensku atvinnulífi en fyrir var. Menn sjá það á því hvernig umræðan hefur þróast og það er ekki eins og þeir hafi þurft að bæta á þá óvissu.

Frú forseti. Ég hef fulla trú á því að hæstv. ráðherra sé málefnalegur og ég hef fulla trú á því að menn geti séð að sér og ég hef fulla trú á því að Alþingi muni samþykkja þessa þingsályktunartillögu með þeim afleiðingum að hæstv. umhverfisráðherra afturkalli þessa ákvörðun sína.