138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[19:27]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi orð hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur þar sem hún fer mikinn í því að túlka orð mín, og ég þakka nú fyrir nafnbótina „málefnalegur ráðherra“, en alla jafna er ég ekkert sérstaklega spennt fyrir því að mín orð séu túlkuð fram og til baka eins og hefur verið viðhaft hér, til að mynda að tala um „meintan áhuga“ á góðri stjórnsýslu, það finnst mér bara verða aðdróttun sem ég er ekki til í að sitja undir, og að „það sjái það hver maður“.

Til viðbótar heldur þingmaðurinn því fram að ég hafi einhvers staðar haldið því fram að ég væri á móti því að nýta þessa orku. Það hef ég aldrei sagt, ég hef aldrei nokkurn tíma sagt að ég sé á móti því að nýta þessa orku. Ég sé sjálf um mína túlkun, (JónG: Segir eitt og gerir annað.) en vandræðalegra er þegar þingmaðurinn talar um að umhverfisráðherra sé með þessari ákvörðun að snúa ákvörðun fyrri umhverfisráðherra. Þetta ber vott um það því miður, þó að það hvíni nú hátt hér í ýmsum stjórnarþingmönnum, að það er grundvallarmisskilningur á ferðinni. Ég ráðlegg þingmanninum að kynna sér málin og hefði verið bragur að því að gera það áður en farið var hér í þessa umræðu að skilja út á hvað málið gengur og væri til ágætrar fyrirmyndar.

Hér er verið að snúa ákvörðun Skipulagsstofnunar til baka og óska eftir nánari gögnum frá Skipulagsstofnun vegna ákvörðunar um Suðvesturlínu en ekki ákvörðun fyrri umhverfisráðherra um sameiginlegt mat vegna álvers í Helguvík. Grundvallaratriði, sem hefur komið fram í allnokkrum blaðagreinum, en kannski fullmikið af gagnasöfnun fyrir þennan málflutning hér. (JónG: Útúrsnúningur.)