138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[19:29]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að hæstv. ráðherra blandi sér í umræðuna og fagna því að hæstv. ráðherra sjái sér loks fært að eiga orðastað við okkur þingmenn Suðurkjördæmis um þetta mál. Ég óska svara við þeirri spurningu minni sem ég varpaði fram áðan: Hvers vegna var því ekki sinnt að mæta á fund með okkur þingmönnum Suðurkjördæmis þegar boðið var upp á það einmitt til þess að fá nánari upplýsingar? Það hefðu verið hæg heimatökin fyrir ráðherrann að upplýsa okkur þá um þessi sjónarmið. Hvaða gögn eru það og hvaða upplýsingar eru það sem vantar? Það væri ágætt að fá það loksins fram hér í umræðunni frá ráðherranum vegna þess að það sem kom fram á fundi þingmanna Suðurkjördæmis, eins og ég sagði áðan, var einfaldlega að það sem vantaði í málið væri afstaða þeirra aðila sem þarna stæðu að, hvort framkvæmdirnar ættu að fara í sameiginlegt umhverfismat eða ekki. Það væri það eina sem stæði út af borðinu. Hvers vegna, ef svo var, var ekki einfalda niðurstaðan fengin með því að ræða við Skipulagsstofnun um það? Það sér hver maður að ekki er heil brú í því að ætla að fara með þessar framkvæmdir í sameiginlegt umhverfismat. Það liggur einfaldlega þannig fyrir.

Ég biðst forláts, frú forseti, ef ég túlka orð og meintan vilja ráðherrans á rangan hátt. Það er kannski vegna þess að ráðherrann gefur ekki færi á sér til að ræða þetta. Það liggur einfaldlega þannig fyrir eins og komið hefur fram. Ég vil líka að hæstv. ráðherra upplýsi mig um þau orð sem fjalla um þetta málefni í stöðugleikasáttmálanum, hvort það sé þá meiningin að þau standi og jafnframt hvort það standi sem stendur í þjóðhagsspá að farið verði í framkvæmdir við álver og fylgt eftir framkvæmdum við álver í Helguvík. Það væri mjög þarft og gott fyrir hæstv. ráðherra að upplýsa okkur um afstöðu sína hér og hvort hún sé fylgjandi að álver í Helguvík verði að veruleika.