138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[19:31]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef væntanlega ekki tíma til að svara öllu því sem hér hefur komið fram en mun taka til máls síðar í umræðunni og koma þá væntanlega að þeim spurningum sem þingmaðurinn bar upp.

Ég verð að segja að mikið hefðu sumir verið ánægðir ef hinn ágæti þingmaður Unnur Brá Konráðsdóttir hefði verið umhverfisráðherra sem segir bara hér, standandi í ræðustól Alþingis: Það gefur augaleið að hér er ekki forsenda fyrir sameiginlegu mati. Þakka þér fyrir. Það lítur bara þannig út. Það þarf engin gögn, það er ekkert uppi á borðinu. Þetta liggur bara fyrir. Fljótlegt. Ég vil minna á það í þessari umræðu að stundum og sérstaklega í tíð Sjálfstæðisflokksins var talað um að umhverfisráðuneytið væri nánast eins og skúffa í iðnaðarráðuneytinu. Hefur þingmaðurinn áhuga á því að endurtaka það? Hvað lítur þingmaðurinn á að sé hlutverk umhverfisráðuneytisins og umhverfisráðherra?

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill minna hæstv. ráðherra á að beina máli sínu til forseta í þingsal Alþingis.)