138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[19:39]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að fullvissa mig um að hann standi við orð sín og það sé stefna hans og flokks hans þá væntanlega í ríkisstjórninni að standa við stöðugleikasáttmálann. Ég efast ekki um góðan vilja allra þeirra sem sitja á þingi, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu til að koma okkur upp úr þessari efnahagslægð sem við dveljum í. En ég verð, frú forseti, ég geri mér grein fyrir því að hæstv. utanríkisráðherra kemur til með að koma aftur upp í ræðustól á eftir mér í þessu andsvari, ég verð engu að síður að lýsa áhyggjum mínum yfir því enn og aftur hversu ósamstiga stjórnarflokkarnir eru varðandi atvinnumálin og orkumálin. Það veldur bæði mér, mörgum öðrum sem sitja í þessum sal og mörgum íbúum þessa lands sem sitja heima, vonbrigðum, þeim sem horfa á þessar umræður atvinnulausir og bíða eftir því að komið verði fyrirtækjunum til aðstoðar og það verði greitt fyrir því að stór atvinnutækifæri verði að veruleika. Þetta er stórt verkefni sem ég vonast til að hæstv. ráðherrar horfi á af mikilli festu.