138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[19:49]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir orð hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar um að misvísandi skilaboð um orkuskatta eru óheppileg. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur reynt að leiðrétta þetta mál af veikum mætti og ég held að enginn eigi lengur að velkjast í vafa um það að þessi eina króna er ekki sú tala sem mun verða niðurstaðan, það er um einhverjar aðrar fjárhæðir um að ræða. En að sjálfsögðu eru óljós skilaboð alltaf óheppilegt, alveg sama hver á í hlut.

Varðandi orkuöflunina vitum við að við eigum von á öðrum áfanga rammaáætlunar núna fljótlega, í lok þessa árs, ef ég man rétt. Þá þurfum við ekki öllu lengur að velkjast í vafa um hvar á að virkja og hvar á ekki að virkja. Því miður náðist ekki að tala fyrir þingsályktunartillögu í dag um landnýtingu og ferðaþjónustu þar sem ég hefði gjarnan viljað taka til máls og undirstrika mikilvægi þess að við förum í þess háttar landnýtingarvinnu hvort heldur sem er á orkusviðinu eða ferðaþjónustunni vegna þess að ferðaþjónustan þarf líka að fá að taka sitt rými.

Talandi um Suðurnesin og atvinnuuppbyggingu á Reykjanesi held ég að þar liggi til að mynda ómæld sóknarfæri með allan þann jarðhita sem þar er í boði, sem við höfum orðið ásátt um að nýta til góðra verka.