138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[19:51]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg með ólíkindum hvað sumum stjórnmálamönnum hér á hinu háa Alþingi er mikið í mun að tala niður stóriðju á Íslandi, eins mikilvæg og hún er nú fyrir þjóðarbúið, og að beita öllum sínum kröftum og aðgerðum í það að reyna að leggja stein í götu þessarar mikilvægu atvinnugreinar. Ég tala nú ekki um á þessum viðsjárverðu tímum þegar svo mikilvægt er að efla íslenskt atvinnulíf.

Það var talað um það á umhverfisþingi um daginn að allir orkukostir í landinu væru að verða búnir og yrðu kláraðir í kringum þær stóriðjuframkvæmdir sem í kortunum eru. Í dag er talið að búið sé að nýta um 30% efnahagslega hagkvæmra orkukosta í vatnsafli. Ef við berum okkur saman við önnur lönd eins og Noreg, Svíþjóð og fleiri lönd, Finnland, Frakkland, Spán og Austurríki, er þessi tala á bilinu 70–90%. Hér hafa síðan um 20% orkukosta í jarðvarma verið virkjaðir og þá er ekki tekið tillit til hugsanlegrar stóraukinnar orkugetu með djúpborunum.

Nú þegar hafa um 20% af flatarmáli Íslands verið friðlýst og má hækka þessa tölu hæglega í 30–40% í umræðunni ef talin eru með svæði á náttúruminjaskrá og vatnsverndarsvæði Mývatns. Á sama tíma er þessi tala um 10% í Svíþjóð og Finnlandi en stefnan í báðum löndum er að ná henni upp í 15%. Hér á landi teljast um 80% allrar frumnotkunar til endurnýjanlegrar orku. Til samanburðar má nefna að meðaltalið innan ESB er 8,5%, en markmiðið er að ná þeirri tölu upp í 20% fyrir árið 2020. Ný ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur sett stefnuna á að þetta hlutfall verði 10% árið 2012 en þar er hlutfallið núna um 5%.

Það hefur verið góð arðsemi af orkusölu til stóriðju og stóriðjan framleiðir mikil verðmæti fyrir íslenskt þjóðarbú. Um 80% raforkunnar hér á landi fara til stóriðju. Raforkuverð til heimila er mun lægra hérlendis en í flestum nágrannalöndum. Þannig kostar meðalheimilisnotkun á rafmagni í Reykjavík einungis fjórðung af því sem hún kostar í Kaupmannahöfn.

Raforka er ekki geymd á lager, hana þarf að nýta samtíða framleiðslu. Fyrirtæki í stóriðju eru skuldbundin til að kaupa mikla magnið allan sólarhringinn alla daga ársins. Slíkir samningar eru afar mikils virði. Þessi fyrirtæki taka einnig beint við raforkunni úr flutningskerfinu og greiða sjálf fyrir dreifingarkostnað sem alla jafna er a.m.k. þriðjungur raforkuverðs.

Bein erlend fjárfesting í íslensku atvinnulífi hefur að langmestu leyti verið í stóriðju. Þetta kemur skýrt fram m.a. í gögnum frá Seðlabankanum. Í árslok 2007 var hlutur stóriðju um 50% af erlendri fjármunaeign í íslensku atvinnulífi ef hlutur fjármálaþjónustu er ekki meðtalinn.

Við fall bankanna sl. haust námu erlendar skuldir þeirra um 9.500 milljörðum eða meiru, jafnvel allt að 12.000 milljörðum. Á árunum 2001 til 2008 námu fjárfestingar í stóriðju hér á landi um 185 milljörðum kr. en fjárfestingar í orku- og veitufyrirtækjum, að vatns-, hita- og fráveitum meðtöldum, alls um 354 milljörðum. Í dag eru síðarnefndu fjárfestingarnar grundvöllur að verðmætasköpun og grunnþjónustu við borgara landsins.

Á Íslandi starfa þrjú álver og samtals nam velta þeirra árið 2008 um 2.050 millj. bandaríkjadala eða rúmlega 164 milljörðum miðað við gengi dollars í 80 kr. Iðnaðarráðuneytið hefur áætlað að um þriðjungur af heildarveltunni verði eftir í íslensku hagkerfi en a.m.k. sum álfyrirtækjanna telja hlutfallið um 40%. Fyrir árið 2008 væru það þá um 683 milljónir dala eða tæpir 55 milljarðar ísl. kr. Og þegar það var reiknað út var gengi dollars í kringum 120 kr.

Þótt fjallað sé um sölu á raforku til stóriðju er það í sjálfu sér ekkert markmið að selja raforku til þeirra fyrirtækja frekar en annarra. Þetta eru hins vegar langstærstu viðskiptavinir íslenskra orkufyrirtækja sem skoða auðvitað alla kosti við ákvarðanatöku um sölu á raforku hverju sinni og velja alltaf þá hagkvæmustu. Hagnaður af rekstri álvera rennur til útlanda með sama hætti og við Íslendingar fáum verulegan virðisauka af starfsemi ýmissa fyrirtækja okkar erlendis. Má þar í gegnum tíðina nefna ýmis iðnfyrirtæki og fyrirtæki í sölu sjávarafurða og fiskvinnslu erlendis. Þetta byggist á fjárfestingum okkar í útlöndum.

Alls staðar í heiminum eru stjórnvöld að reyna að laða til sín erlenda fjárfestingu enda bein tengsl á milli hennar og hagvaxtar. Álfyrirtækin hafa kosið að fjárfesta á Íslandi og grundvallast þær ákvarðanir á sameiginlegum hagsmunum okkar Íslendinga og þeirra. Þessar fjárfestingar hafa gert okkur kleift að nýta áður ónýttar orkuauðlindir. Í formi áls erum við í raun að flytja út vistvæna orku, í formi áls og annarrar stóriðju sem hér er stunduð.

Bygging ál- og orkuvera hefur að verulegu leyti verið fjármögnuð með erlendu lánsfé. Á bak við vaxtagreiðslur og afborganir af erlendum lánum er hins vegar eignamyndun á Íslandi. Þegar greitt hefur verið af lánunum standa eftir skuldlausar eignir sem mala gull fyrir íslenskt þjóðarbú. Samtals starfa nú um 1.450 manns hjá álfyrirtækjum á Íslandi og áætlað hefur verið að hverju slíku starfi fylgi um 2,4 afleidd störf sem gerir tæp 3.500 afleidd störf eða samtals um 5.000 störf í þeim iðnaði einum saman. Samtals kaupa álfyrirtækin á Íslandi vörur og þjónustu af á hátt á annað þúsund íslenskum fyrirtækjum. Gróflega áætlað kaupir hvert álver þjónustu af fyrirtækjum fyrir 6–10 milljarða á ári eða ríflega 20 milljarða samtals. Að stærstum hluta fer þessi upphæð í laun til starfsmanna hjá umræddum fyrirtækjum.

Fyrir liggur að meðallaun hjá stóriðjufyrirtækjunum og orkufyrirtækjunum eru mun hærri en meðallaun ganga og gerast í samfélaginu. Orku- og veitufyrirtæki leggja mjög mikla áherslu á öryggismál og það er á engan hallað þó að fullyrt sér að stóriðjufyrirtækin hafa lengi verið í fararbroddi á þessu sviði. Árið 2006 voru unnin 230 ársverk háskóla- og tæknimenntaðra manna hjá íslenskum orku- og veitufyrirtækjum, þar af 500 ársverk verk- og tæknifræðinga og 500 ársverk iðnmenntaðra. Í stóriðju er svipaða sögu að segja þar sem um 40% starfsfólksins er með háskóla- og tæknimenntun. Loks starfa hundruð sérfræðinga á verkfræðistofum víða um land. Mikil fjárfesting liggur að baki þessum fyrirtækjum og þau eru skuldbundin til að kaupa raforku hér langt fram í tímann og þau eiga þá ekki svo auðvelt með að færa sig.

Umhverfismálin skipa stóran sess í rekstri orku- og veitufyrirtækja hvort sem um er að ræða virkjanir vegna nýtingar endurnýjanlegrar orku. Áhersla er jafnan lögð á að umgangast landið með virðingu og að öllu raski sé haldið í lágmarki. Frágangur í verklok sé til fyrirmyndar og raunar tekið tillit til náttúru og umhverfis í allri starfseminni. Enn fremur hafa mörg orku- og veitufyrirtæki lagt áherslu á að bæta innviði í ferðamennsku og útivistar á virkjunarsvæðum. Kostnaður vegna slíkra umhverfisverkefna er ekki alltaf sundurgreinanlegur og umframkostnaður vegna almennra áherslna í umhverfismálum svo sem við vinnuflokka og svo margt fjölbreytt sem er í gangi. Hversu miklum fjármunum þeir hafa varið til umhverfismála má reikna með að orku- og veitufyrirtækin skili samtals á annan milljarð kr. á árunum 2001–2006 eða rúmum milljarði kr. til verkefna á eigin vegum á sviði umhverfismála svo sem vegna landbætingar, göngustígagerðar og hreinsunarverkefna. Á sama tíma greiddu þessi fyrirtæki 500 millj. kr. í styrki til annarra aðila.

Loks má nefna það hér að miklar vonir eru bundnar við ferðaþjónustu sem vaxtargrein í íslensku atvinnulífi og orkufyrirtækin hafa lagt mjög mikið á sig í þeim efnum. Á annað hundrað þúsund manns heimsóttu Hellisheiði í sumar, sem er að verða mjög vinsæll ferðamannastaður. Vinsælir ferðamannastaðir á borð við Bláa lónið og Perluna eru beintengdir orkuiðnaði eða afsprengi hans. Það er áætlað að um 407 þúsund manns hafi komið í Svartsengi og Bláa lónið árið 2008. Perlan er byggð á hitaveituvatnstönkum Orkuveitu Reykjavíkur og 570 þúsund manns komu í Perluna árið 2008.

Það má því sjá hversu mikilvæg atvinnugrein er hér í húfi og hversu mikilvægt það er fyrir okkur Íslendinga að haldið sé vel á spöðunum þegar kemur að framtíðaruppbyggingu á þessu sviði, stóriðju á Íslandi, sem nýtir þá hagkvæmu virkjunarkosti sem hér eru til staðar, sem eru langt frá því að vera fullnýttir. Það liggur einhvers staðar gullvægur þráður, gullvæg leið milli nýtingar og verndunar á þessu sviði. Ég tel að við Íslendingar höfum verið í fararbroddi þegar kemur að þeim þætti og við eigum að vera það áfram. Ég skora á hæstv. umhverfisráðherra að taka til baka ákvörðunina (Forseti hringir.) um Suðvesturlínu og hætta að setja í uppnám þær mikilvægu atvinnuleiðir sem sú lína á að fæða í framtíðinni.