138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[20:02]
Horfa

Davíð Stefánsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hér fer fram skemmtilegt leikrit í boði stóriðjusinna. Það fjallar ekki um Suðvesturlínu, það fjallar um víglínur á milli stóriðjustefnu og umhverfisstefnu. Það hvernig stóriðjusinnar ofmeta og oftúlka ákvörðun hæstv. umhverfisráðherra bendir til þess að stóriðjusinnar hafi vígbúist. Þeir munu nota hvert tækifæri til að halda hræðsluáróðri sínum á lofti, kalla umhverfisvernd hryðjuverk og þar fram eftir götunum. Þetta er söngur sem við höfum heyrt í ansi mörg ár.

Í kvöld hefur verið talað um að senda erlendum fjárfestum skilaboð. En hvaða skilaboð er umhverfisráðherra að senda með gjörðum sínum? Hún sendir kjósendum Vinstri grænna og öðrum umhverfissinnum þjóðarinnar, hún sendir þjóðinni þau skilaboð að umhverfissjónarmið séu gild í sjálfu sér en séu ekki neðanmálsgrein í bókum iðnaðarráðuneytisins.