138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[20:03]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum ekki að draga neinar víglínur. Við erum að reyna að fjalla af bestu vitund og málefnalega um þá þætti sem eru þessari þjóð mikilvægastir við þær aðstæður sem eru í landinu í dag. Við erum ekki að draga neina víglínu milli stóriðjustefnu og verndunarstefnu. Ég sagði áðan að það væri fín lína milli nýtingar og verndunar og ég tel að við höfum farið mjög vel fram í því. Eins og ég sagði í ræðu minni áðan höfum við verndað nú þegar í formi þjóðgarða um 20% af landinu og það má telja að með öðrum stöðum sem verndaðir eru séu milli 30 og 40% af landinu sem nýtur verndunar nú þegar. Hvar liggur þessi lína?

Við tölum ekki um hryðjuverk. Það eru ofstopamenn í náttúruvernd sem tala um hryðjuverk. (Umhvrh.: Árni Johnsen.) Við tölum um að umhverfisvernd geti vel rúmast innan þeirrar stefnu sem fjallar um það að stunda stóriðju á Íslandi. Það er engin þjóð, virðulegi forseti, sem hefur efni á því að nýta ekki auðlindir sínar. Ég fór yfir það í stuttu máli áðan hver samanburður okkar er við aðrar þjóðir í þeim efnum. Við stöndum þar mörgum metrum framar en þær þjóðir sem við berum okkur saman við, t.d. allflest löndin ef ekki öll innan Evrópusambandsins. Hvaða skilaboð er hæstv. umhverfisráðherra að senda? Hæstv. umhverfisráðherra og þessi ríkisstjórn er að senda þau skilaboð til alþjóðaumhverfisins, sem mögulega hefði viljað byggja upp atvinnutækifæri á Íslandi, að komi ekki nálægt okkur.

Við höfum notið þess umfram aðrar þjóðir að hér hefur verið talinn ríkja stöðugleiki. Sá stöðugleiki er ekki fyrir hendi lengur þannig að við erum komin í samanburð við þjóðir í Suður-Ameríku og Afríku hvað þetta varðar.