138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[20:37]
Horfa

Flm. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það kemur kannski ekki á óvart að ég og hv. þingmaður erum ekki sammála í þessum efnum. Ég biðst velvirðingar á því að ég hafi túlkað orð hans með einhverjum þeim hætti sem hann er ósáttur við en ég segi eins og þingmaðurinn, ég ætla að gera það aftur vegna þess að í mínum huga er þetta óaðskiljanlegt. Einnig vil ég mótmæla því að hér sé verið að gera úlfalda úr mýflugu. Það eru ekki mín orð sem birtast t.d. í Morgunblaðinu hjá pistlahöfundi sem ég þekki ekki frekari deili á, Sigrúnu Ásmundar, sem skrifar 2. október, með leyfi forseta:

„Svandís Svavarsdóttir fullkomnaði fáránleikann í þjóðfélaginu með óskiljanlegum úrskurði sínum um Suðvesturlínur. Sú ákvörðun er álíka blaut tuska í andlit landsmanna og úrskurður Þórunnar Sveinbjarnardóttur, þáverandi umhverfisráðherra, á sínum tíma um sameiginlegt umhverfismat vegna álvers á Bakka.“

Ja, ég er ekki viss um að hv. þingmaður sé sammála mér núna en mér finnst hún síst af öllu vera að gera úlfalda úr mýflugu.