138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[20:40]
Horfa

Flm. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég man ekki hvort ég hafi notað orðið „ólögmætt“. Ég talaði um í ræðu minni að vissulega hefðu þessi samtök farið yfir nokkra þætti sem þeir teldu að brotið hefðu lög. Ég talaði í síðari ræðu minni um góða stjórnsýslu og góða stjórnsýsluhætti og mér þykja það ekki góðir stjórnsýsluhættir að farið sé ítrekað fram yfir lögbundinn frest. Hann er lögbundinn þó svo að það sé eflaust rétt sem hæstv. ráðherra segir að úrskurðurinn verði ekki ólögmætur fyrir vikið.

Hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni: Höfum við ekki tíma til að kalla eftir upplýsingum? Höfum við ekki tíma fyrir þetta? Nei. Við höfum bara þann tíma eins og segir til um í lögunum. Við eigum að miða við það. Það er góðir stjórnsýsluhættir. Það er það sem ég er að benda á. Þá spyr ég hæstv. umhverfisráðherra um annan úrskurð sem er þaulsetinn í hennar ágæta ráðuneyti og það er úrskurðurinn um skipulagið í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Hvað dvelur hann? Er verið að leita upplýsinga þar? Nei, ég leyfi mér að fullyrða að í þessu tilfelli eigi það eitthvað skylt við pólitík eins og ég held fram að sé hér um að ræða. Og að hæstv. ráðherra ætli að bæta úr þessu með því að lengja frest — ég er algerlega á móti því. Ég vil að menn spýti bara í lófann og klári þessi mál vegna þess að við eigum að hafa góðar, skýrar reglur og umfram allt reglur sem farið er eftir. Þá erum við öll sammála og ég er alls ekki að biðja hæstv. ráðherra um að veita nokkurn afslátt. Ég er bara að biðja hæstv. ráðherra um að fara að þessum leikreglum, breyta ekki leikreglunum eftir á og með því drepa von í samfélagi sem mér er mjög kært.