138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

staða skuldara -- persónukjör -- stuðningur við Icesave.

[13:48]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir þessa fyrirspurn í þessu mikilvæga máli. Ég er sammála honum í því að hugmyndafræðina verður að stokka upp, líta á það sem fólk getur en ekki það sem það getur ekki. Þar er ég honum hjartanlega sammála. Auðvitað hefur ýmiss konar vinna átt sér stað í þessum efnum og ég veit ekki betur en að enn sé unnið að þessu hörðum höndum innan félagsmálaráðuneytisins þótt við horfum auðvitað, eins og við öll vitum, fram á blóðugan niðurskurð á öllum sviðum, þarna líka, og enn þá er verið að færa til verkefni frá heilbrigðisráðuneyti yfir til félagsmálaráðuneytis o.s.frv.

Ég tek jákvætt í það sem hv. þingmaður beinir til mín sem formanns félagsmálanefndar um að við vinnum í þessu máli á vegum nefndarinnar og öðrum nefndum þingsins. Eitt verð ég hins vegar að fá að segja í þessu máli þar sem ég veit að okkur hv. þingmann greinir á, það er um það hvernig og hverjir skuli koma að þessu, hvernig þetta verður gert, af hverjum og á hvaða forsendum. Eins og hv. þingmaður veit er ég mjög svo á móti tvöföldu kerfi eða einhvers konar vísi að frekara tvöföldu kerfi (Gripið fram í.) innan velferðarþjónustunnar, heilbrigðiskerfisins og félagsmálakerfisins. Þarna verðum við að stíga mjög varlega til jarðar — því að hverjir eru að veita þessa þjónustu og á hvaða forsendum? Til lengri tíma litið skiptir það úrslitum um það hvernig þessari þjónustu reiðir af og hvernig við fáum alla til að vera raunverulega virkir þátttakendur í samfélaginu og að við einmitt, eins og hv. þingmaður bendir réttilega á, lítum á getu þeirra en ekki vangetu.