138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

staða skuldara -- persónukjör -- stuðningur við Icesave.

[13:50]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Áður en ég ræði það sem ég ætla að ræða um stöðugleikasáttmálann vil ég vekja athygli á því að hv. þingmaður, formaður þingflokks Vinstri grænna, lýsti því yfir að samningsstaða Íslands hefði styrkst varðandi Icesave. Hæstv. fjármálaráðherra og forsætisráðherra sögðu hér bæði þegar við kláruðum þetta mál í sumar að það væri innan ramma samkomulagsins og hér var sérstaklega lögð áhersla á að fyrirvararnir mundu standa. Nú er lagt upp með það að einhver samningsstaða hafi styrkst. Þetta er mjög merkilegt. (Gripið fram í: Já.)

Virðulegur forseti. Ég ætla hins vegar að ræða aðeins um stöðugleikasáttmálann og beini orðum mínum til varaformanns fjárlaganefndar, hv. þm. Björns Vals Gíslasonar. Menn fögnuðu mjög hér í sumar, sérstaklega forustumenn ríkisstjórnarinnar, að hafa skrifað undir stöðugleikasáttmála við aðila vinnumarkaðarins. Launþegahreyfingin færði miklar fórnir vegna þess að ríkisstjórnin lofaði ákveðnum hlutum, m.a. að fara í framkvæmdir og, eins og segir beint í sáttmálanum, virðulegi forseti:

„Ríkisstjórnin mun greiða götu þegar ákveðinna stórframkvæmda samanber þjóðhagsáætlun, svo sem framkvæmda vegna álvera í Helguvík og Straumsvík.“

Þetta stendur í stöðugleikasáttmálanum, svart á hvítu. Nú liggur hins vegar fyrir að fjárlögin í ár og á næstu árum ganga út frá þeirri forsendu að farið verði í þessar framkvæmdir. En nú lýsa bæði forsvarsmenn launþega og atvinnurekenda því yfir að stöðugleikasáttmálinn hangi saman á óskhyggjunni einni vegna vanefnda og svika ríkisstjórnarinnar. Þá er sérstaklega vísað í hæstv. umhverfisráðherra. Ég vil fá að heyra hjá hv. þingmanni sem er (Forseti hringir.) núna að fara í gegnum fjárlögin og veit hvaða afleiðingar þetta hefur, ekki bara fyrir fjölskyldurnar í landinu heldur líka fyrir garminn ríkissjóð, viðhorf hans og hvaða skilaboð eru til aðila (Forseti hringir.) vinnumarkaðarins hvað þetta mál varðar.