138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

staða skuldara -- persónukjör -- stuðningur við Icesave.

[13:52]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Til að byrja með lýsi ég yfir furðu minni að mörgu leyti með þann málflutning, það orðaval og þær áherslur sem er haldið á lofti í þessu máli. Í þingsölum hafa þingmenn meira að segja talað um að framin hafi verið hryðjuverk á Íslandi vegna umhverfismála, vegna áherslu umhverfisráðherra í umhverfismálum, vegna áherslna Alþingis og ríkisstjórnarinnar (Gripið fram í.) í umhverfismálum. Það er talað um gjaldþrot í boði ráðherra ef á að fara eftir lögum og góðri stjórnsýslu í landinu. Hvers konar málflutningur er þetta eiginlega, virðulegi forseti? (GÞÞ: Góð byrjun.) Þetta er hvorki bjóðandi Alþingi Íslendinga né nokkrum einasta stjórnmálaflokki á Íslandi, ekki einu sinni Sjálfstæðisflokknum. Ég vil ekki trúa því að innan raða þess flokks sé mikið fylgi við slíkan málflutning. (GÞÞ: Eru þetta skilaboðin?) Þetta eru skilaboðin, já, að þessi ummæli eru ekki bjóðandi, hvorki hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni né öðrum, hvorki á Alþingi né utan þings. (Gripið fram í.) Ber umhverfisráðherra ábyrgð á fjármögnun þessa verkefnis? Mun nokkurra vikna töf vegna mats á umhverfisáhrifum um línulagnir setja Ísland í gjaldþrot? (Gripið fram í: Getur verið.) Eru það hryðjuverk? Er það yfirlýsing um gjaldþrot? Hvers konar málflutningur er þetta? (Gripið fram í.) Þetta er engum manni bjóðandi, þetta er engum þingmanni bjóðandi, þetta er engum stjórnmálamanni bjóðandi, það er engum Íslendingi bjóðandi að halda slíku á lofti. Við ætlum ekki að halda áfram á sömu braut og þið skilduð við. Það eru alveg hreinar línur með það, hv. þingmenn Sjálfstæðisflokks og hv. þingmenn Framsóknarflokks, það verður ekki haldið áfram á þessari braut. (Gripið fram í: Enda …) Við ætlum að byggja nýtt Ísland á allt öðrum grunni en þið rústuðuð það á. (Gripið fram í.) [Háreysti í þingsal.]