138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

staða skuldara -- persónukjör -- stuðningur við Icesave.

[13:55]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að leggja aðeins orð í belg með það mál sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir varpaði fram áðan til hv. þm. Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur. Ýmsar rangfærslur komu fram í svari Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur þar sem hún taldi að mikil umræða hefði verið um málið, eða talsverð umræða eins og hún talaði um, í þessum ræðustól þegar málið var lagt fram í sumar. Svo var ekki. Þrír þingmenn töluðu í málinu, ég sem stend hér nú, hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir. (SVÓ: Það eru nú taldar …) Það fór svo að stjórnarþingmennirnir voru á móti frumvarpinu og ég stjórnarandstæðingurinn með því.

Nú stöndum við frammi fyrir því að ríkisstjórnin veit ekki hvað hún á að gera við frumvarpið því að lýðræðisástin sem þessir ríkisstjórnarflokkar hafa alltaf talið til sögunnar og telja sig hafa forgöngu um brennur ekki nógu heitt. Nú eru þeir ekki sammála um þetta frumvarp og að öllum líkindum verður það ekki lagt fram. Hv. þm. Steinunn Valdís sagði hér áðan að það ætti jafnvel að leyfa sveitarfélögum — (Forseti hringir.) Hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir sagði hér áðan að það ætti jafnvel að leyfa sveitarfélögum að hafa sjálfdæmi um það hvort þau vildu hafa persónukjör eða ekki. (Gripið fram í.) Í nefndinni sem ég sat í fyrir hönd Framsóknarflokksins kom skýrt fram hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni að þetta væri ekki viðeigandi því að í landinu ríktu ein lög og að sjálfsögðu eiga að vera ein kosningalög í landinu. Slíkt er vantraustið og vantrúin á stjórnsýsluna að ekki væri vert að hleypa kosningalögunum í uppnám. Þetta er aftur dæmi um það að ríkisstjórnin veit ekki hvað hún er að fara. Þeir hafa markmiðalista. Persónukjörið verður ekki. Við heyrðum það alveg greinilega á hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur áðan. (Gripið fram í.)