138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

staða landsbyggðarinnar.

[14:08]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Þegar hv. þingmaður stillir dæminu þannig upp að hér sé vond ríkisstjórn sem vilji sérstaklega þjarma að landsbyggðinni lítur hann kannski fram hjá tveimur þáttum sem skipta máli, annars vegar að það varð hrun á Íslandi, það varð banka- og efnahagshrun með miklum kostnaði fyrir þjóðarbúið allt og það kemur við alla landsmenn. Allir Íslendingar eru þar á sama báti. Það þýðir ekki að ræða aðstæður okkar á Íslandi í dag eins og ekkert hafi gerst hér í októbermánuði 2008 og það hafi ekki átt sér neinn aðdraganda á árunum þar á undan. Allra síst er við hæfi að þingmenn úr röðum Sjálfstæðisflokksins komi í ræðupúlt og tali þannig. Stjórnvöld eru ekki að gera það sem þau eru að gera eftir einhverju frjálsu vali og að gamni sínu. Það gildir um þær hagræðingaraðgerðir sem óumflýjanlegar eru. Öllum má vera ljóst að með hallarekstri á ríkissjóði og hinu opinbera af því tagi sem við horfðumst í augu við þegar árið 2008 var gert upp og blasir við á þessu ári endar allt með ósköpum á örfáum árum. Þá fer ríkissjóður lóðbeint á hausinn og ekki mun það auðvelda okkur að halda uppi opinberri þjónustu eða skapa störf, hvort heldur er á landsbyggðinni eða annars staðar. Þetta verðum við einfaldlega að horfast í augu við. Þær hagræðingaraðgerðir sem eru óumflýjanlegar miða einmitt að því að hægt sé að veita og tryggja nauðsynlega grunnþjónustu um allt land með sem skilvirkustum og ódýrustum hætti. Þá verða menn að hafa sig upp úr hjólförunum, íhaldshjólförunum, og þora að skoða möguleikana sem eru á því að endurskipuleggja þjónustu, taka tæknina með í för og reyna að gera þetta skilvirkt. Það var löngu tímabært að fara í gegnum ýmsa hætti í opinberri þjónustu með þessu hugarfari.

Svo tekið sé eitt dæmi, sem er ræðumanni nærtækt, skatturinn, eru auðvitað afar fá rök fyrir því í nútímanum að nákvæmlega sama fyrirkomulag og skipulag eigi við í dag og áður, framtöl eru að mestu leyti orðin rafræn og horfin inn á netið og unnt er bæði að taka við þeim og vinna úr þeim hvar sem er á landinu óháð staðsetningu. Ég held að þeir sem gera sig út fyrir að vera sérstakir talsmenn landsbyggðarinnar eða einhverra hluta hennar eigi ekki að horfa fram hjá möguleikunum á að nota tækifærið í báðar áttir, líka til þess að efla ýmsa starfsemi á landsbyggðinni með verkaskiptingu og með því að taka tæknina í þjónustu okkar. Við höfum á síðari árum mörg góð dæmi um að slíkt er hægt og það getur verið báðum aðilum hagkvæmt, þeim sem borga þjónustuna og hinum sem njóta hennar. Víða á landsbyggðinni eru ákjósanlegar aðstæður fyrir slíka vinnslu, stöðugur vinnumarkaður, minni starfsmannavelta, lægri húsnæðiskostnaður og margt fleira sem getur gert þessa þjónustu hagkvæmari.

Ég er þeirrar skoðunar og hef sannfærst um það eftir að hafa skoðað það undanfarna mánuði að það er löngu tímabært að gera landið t.d. að einu skattumdæmi. Það er augljóslega langgáfulegasta skipulagið og gæti einmitt falið í sér möguleika til þess að láta vinna þau verkefni á starfsstöðvum vítt og breitt um landið og færa þess vegna til störf.

Í öðru lagi skulum við líka hafa í huga að landsbyggðin kemst að breyttu breytanda að miklu leyti betur frá þessum áföllum en höfuðborgarsvæðið. Atvinnuleysið er mest á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjunum. Ef við skoðum stöðu landsbyggðarinnar, að Suðurnesjum frátöldum, er bæði atvinnuástand og búsetuþróun tiltölulega jákvæð. Fækkun fólks á þeim svæðum landsbyggðarinnar þar sem hún er einhver er fyrst og fremst brottflutningur fólks með erlendan ríkisborgararétt. Ef við tökum fráflutninginn af höfuðborgarsvæðinu sem er umfram aðflutning eru það 70% íslenskir ríkisborgarar sem hverfa á brott af höfuðborgarsvæðinu, en þegar við förum út á land snýst þetta við. 70% þeirra sem flutt hafa af landsbyggðinni eru erlendir ríkisborgarar. Landsbyggðin heldur núna mjög vel sínu fólki, enda atvinnuleysið minna (Gripið fram í.) eins og kunnugt er. (Gripið fram í: Fáránlegt.)

Ég get tekið undir það með hv. þingmanni, að sjálfsögðu er líka ýmislegt mótdrægt eins og hækkandi flutningskostnaður. Þar njótum við þess að vísu að batnandi samgöngur skila líka árangri í þá áttina eins og menn sáu þegar gjaldskrár í flutningum vestur á firði voru lækkaðar þegar sá ánægjulegi dagur rann upp að þangað var hægt að keyra alla leið á bundnu slitlagi. Það eru hlutir sem vinna bæði með okkur og á móti í þessum efnum.

Ég er nú reyndar ekki (Forseti hringir.) ráðherra sveitarstjórnarmála eða byggðamála, frú forseti, en ræði þetta engu að síður af hinni mestu ánægju við hv. þm. Árna Johnsen og aðra þingmenn og skal fara í seinni ræðu betur yfir ýmsa fjárhagslega liði og þá sem snúa að afkomu t.d. sveitarfélaga á landsbyggðinni sem skiptir máli í þessum efnum. Þar er reyndar sama staða upp á teningnum, mörg sveitarfélög landsbyggðarinnar (Forseti hringir.) eru greinilega að komast í gegnum erfiðleikana með mun minna tekjufalli en stóru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu.