138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

staða landsbyggðarinnar.

[14:14]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil nú segja að manni hitnar aðeins í hamsi við að hlusta á hvernig hæstv. fjármálaráðherra leggur ræðu sína upp. Það er ótrúlegt að hlusta á það hvernig hæstv. ráðherra talar í raun niður til þeirrar áratugabaráttu sem landsbyggðin hefur háð fyrir hverju einasta starfi sem hún hefur fengið frá ríkinu, öllum opinberum störfum. Það gengur fram af mér að heyra að ráðherranum finnist bara allt í lagi, virðist vera, að taka þessi störf eða skera þau niður núna í einu vetfangi, hvort sem það eru sýslumenn, skattstjórar, skattstofur eða önnur opinber störf. Það virðist ekki vera neitt einasta mál, ekki vefjast einu sinni fyrir hæstv. ráðherra, að skera þau niður.

Mig langar að spyrja ráðherrann fyrst hann er á þessum buxum og talar um að núna séu leiðir til að efla landsbyggðina: Hvar í þessu ólukkans fjárlagafrumvarpi sem hann hefur lagt fram eru dæmi um að verið sé að efla landsbyggðina? Hvar? Ég hef ekki séð eitt einasta dæmi um það.

Það er talað um að skerða heilbrigðisstofnanir, svo dæmi séu tekin frá Patreksfirði, Blönduósi og Sauðárkróki, meira en nokkrar aðrar heilbrigðisstofnanir, um 11–13%.

Hér er státað af samgöngubótum. Jú, auðvitað fögnum við því að nýr vegur var vígður um daginn og hann mun gagnast mikið. En bíðum nú við, það er búið að tilkynna að skera eigi niður allar samgöngubætur á landsbyggðinni á næstu tímum, það á hins vegar að fara í uppbyggingu í höfuðborginni, sem vel að merkja veitir ekki af. Það veitir ekkert af því.

Svo er blessuð fyrningarleiðin. Ég skil ekki betur en að hæstv. fjármálaráðherra standi að henni. Það hleypir öllu í bál og brand og kemur verst niður á landsbyggðinni.

Þetta fjárlagafrumvarp og sú ræða sem hæstv. fjármálaráðherra hélt hér áðan, frú forseti, er — ég ætla ekki að nota stóra orðið varðandi stríð og annað, en það er óskaplega sterk yfirlýsing gagnvart landsbyggðinni sem kom fram í ræðu hæstv. ráðherra. Ég vildi óska að ég hefði 10–15 mínútur í viðbót (Forseti hringir.) til að ræða þessi mál við hann. (Gripið fram í.) Þá tökum við aðra umræðu síðar. [Háreysti í þingsal.]