138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

staða landsbyggðarinnar.

[14:17]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef hugsað mér að vera í heldur jákvæðari gír, enda annars kyns en þeir sem hér hafa talað á undan mér. En ég á heima á Íslandi, Íslandinu góða, eins og við syngjum svo gjarnan glöð um jólaleytið, en ekki: Ég á heima í Reykjavík, eða ég á heima á landsbyggðinni. Ég er orðin þreytt og leið á ríg og togstreitu milli þessara svæða. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Við þurfum og viljum höfuðborg þar sem við höfum miðstöð stjórnsýslu og samgangna og við þurfum og viljum byggja allt Ísland með góðum samgöngum til að auðvelda aðgang, að náttúruauðlindum og mannauð um allt land. Það eru engir sýnilegar múrar þarna á milli. Mér finnst frábært að eiga tvö heimili núna, annað hér í borginni og hitt á hinum enda landsins, fyrir austan. Hér er meiri þjónusta, meiri fjölbreytileiki, en um leið leiðindaumferð og mengun. Fyrir austan er margt einhæft og fábreytt, en náttúran er við húsdyrnar, það er nánd milli fólks og samfélagið er einfalt. Þetta er Ísland í dag, fjölbreytt og frábært land.

Í dreifbýlu, fámennu landi, skiptir miklu að grunnþjónustan sé vönduð og góð um allt land, það má ekki detta í forarpytt hausatöluviðmiða sem helsta mælikvarða í úthlutun fjármagns. Viðmiðið á að vera að sú grunnþjónusta sem allir þurfa á að halda sé örugg og ekki langt undan og hún má svo sannarlega vera í stöðugri endurskoðun. Byggðastefna á að vera jöfnunartæki til þess að halda þessum sjónarmiðum á lofti en ekki að byggja múra á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Á landsbyggðinni erum við mjög viðkvæm fyrir því þegar mikilvæg störf eru lögð niður en á höfuðborgarsvæðinu er atvinnuleysi mikið og hvert starf er því afar mikils virði. Alls staðar er því mikilvægt að hlúa að nýjum atvinnutækifærum, menntunarframboði og samstarfi atvinnulífs og fræðslustarfs, til frekari uppbyggingar. Við erum öll Íslendingar, eigum að vinna saman, tala saman til að skilja (Forseti hringir.) og skynja þarfir hvers annars og læra hvert af öðru.