138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

staða landsbyggðarinnar.

[14:19]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegi forseti. Mig langar að tæpa á nokkrum atriðum varðandi þau mál sem hafa haft meira að segja fyrir landsbyggðina en nokkurra mánaða vera hæstv. fjármálaráðherra í fjármálaráðuneytinu. Það vill einfaldlega svo til að hér um árið tíðkuðust strandsiglingar. Hér var fyrirtæki sem hét Skipaútgerð ríkisins sem hafði það hlutverk að tryggja flutninga út á land á kostnaðarverði. Við skulum reyna að muna eftir því hverjir lögðu það fyrirtæki niður.

Við skulum reyna að muna eftir því hvaða fyrirtæki stóðu að flutningum á skipum við ströndina, þau áttu jafnframt bílaflutningafyrirtæki og hættu strandsiglingunum vegna þess að það var miklu meira upp úr því að hafa að flytja vörurnar með bílunum. Við skulum halda því til haga hverjir voru í samgönguráðuneytinu þá og lyftu ekki litla fingri til að breyta því.

Við skulum halda því til haga hverjir voru hér við völd þegar aflaheimildir voru framseldir út og suður. Guggan sem átti áfram að vera gul og vera gerð út frá Ísafirði er það ekki lengur, hverjir voru við stjórnvölinn þá?

Við skulum halda því til haga hverjir voru við stjórnvölinn þegar útflöggun íslenskra kaupskipa átti sér stað og hverjir stjórnuðu í samgönguráðuneytinu þá. Gott ef það var ekki erfingi stærsta hluta einkahlutafjár í Eimskipafélagi Íslands.

Við skulum halda því til haga hverjir hafa verið hér við völd undanfarin 20 ár og gert meira til að skaða landsbyggðina en hæstv. fjármálaráðherra. Þótt það megi nú sennilega kenna honum um ýmislegt á hann þetta ekki skilið. Það eru Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur sem hafa lagt landsbyggðina nánast í rúst. (Gripið fram í: … kvótakerfinu?)