138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

staða landsbyggðarinnar.

[14:28]
Horfa

Guðrún Erlingsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum ein þjóð í einu landi á erfiðum tímum. Allir landsmenn, sama hvar þeir búa, verða að taka þátt í því að byggja upp nýtt þjóðfélag að loknu hruni. Það er ekkert óeðlilegt þó að landsbyggðarþingmenn tali fyrir málum síns byggðarlags. Ég hef sagt það áður í ræðustóli Alþingis að landsbyggðin veigri sér ekki við að taka þátt í þeim niðurskurði sem fyrirhugaður er þrátt fyrir að hún telji sig lítið hafa til þess unnið. En landsbyggðin gerir þá kröfu að um raunverulegan sparnað sé að ræða þegar niðurskurðurinn á sér stað og að bjargirnar séu ekki teknar af landsbyggðinni. En hugur minn er líka hjá höfuðborgarsvæðinu sem glímir við töluvert atvinnuleysi, kaupmáttarrýrnun, launalækkanir og niðurskurð. Íbúar höfuðborgarsvæðisins finna verulega fyrir breyttu ástandi. Það er hátt fall úr góðæri í hrun. Verkefni komandi mánaða eru erfið. Við verðum að hlusta á sjónarmið alls landsins, bæði landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins. Í mínum huga gegna samgöngur lykilhlutverki á landsbyggðinni auk þess að verja störfin sem þar eru.