138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

staða landsbyggðarinnar.

[14:29]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það lá ljóst fyrir strax á síðasta ári að þéttbýlissvæði okkar, höfuðborgarsvæðið, yrði frekt til fjárins og það virðist ætla að komast upp með það við gerð fjárlaga, á því hef ég vakið athygli. Það er óskynsamlegt eins og hér hefur komið fram hjá fyrri ræðumönnum að kreppa að þeim möguleikum sem mestir eru til þess að byggja upp íslenskt þjóðfélag svo vel sé — að landsbyggðinni sem skilar langmestum hluta tekna í kerfinu. Það á ekki að ganga að þeim sem þurfa að skila árangri og eru færir til þess. Það er ekki hagræðing. Hótunin um kvótafyrningu er ótrúleg árás, ekki bara á landsbyggðina, hún er árás á íslenskt samfélag vegna þess að ef kvótafyrningin gengur eftir fara sjávarútvegsfyrirtækin unnvörpum á hausinn. Er það það sem við höfum þörf fyrir í dag? Þau fara unnvörpum á hausinn og menn pússa bara augabrúnirnar og láta sem ekkert sé hérna á suðursvæðinu og segja að þetta sé ósköp sanngjarnt og skynsamlegt. En þetta er galin hugmynd.

Ríkisstjórnin hefur hunsað það að ganga til verka og ljúka frágangi samninga til að mynda við fyrirtæki sem hugsa sér til hreyfings á Suðurnesjum. Það eru, eins og ég gat fyrr um í ræðu minni, þúsundir starfa sem liggja undir vegna sinnuleysis ríkisstjórnarinnar, (Forseti hringir.) samningar í fjármálaráðuneytinu við IBM út af gagnaveri o.s.frv.