138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

útgreiðsla séreignarsparnaðar.

55. mál
[14:34]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég vil gjarnan nota þetta tækifæri hér í fyrirspurnatíma til þess að spyrja ráðherra nokkurra spurninga vegna útgreiðslu svokallaðs séreignarlífeyrissparnaðar landsmanna, en þetta mál á sér nokkra forsögu. Þannig var að á haustmánuðum 2008, eftir að hrunið varð hér í fjármálakerfinu, setti þáverandi ríkisstjórn vinnuhóp á laggirnar sem sú sem hér stendur átti sæti í. Sá vinnuhópur vann ýmsar tillögur til þess að létta undir með heimilum landsmanna. Ein af þeim hugmyndum sem þá komu upp var að heimila tímabundið útgreiðslu séreignarsparnaðar landsmanna. Þetta var rætt nokkuð hér í þinginu á sínum tíma og auðvitað verður að segjast eins og er að það voru svolítið skiptar skoðanir um þetta. Meðal annars voru ýmsir sem vöruðu við því að ef farið yrði of geyst í þessar útgreiðslur gæti það haft ákveðin alvarleg áhrif á lífeyrissjóðina. Lífeyrissjóðirnir sjálfir voru skiljanlega ekkert sérlega áfjáðir í að veita þessa heimild en niðurstaðan varð síðan sú með lögum sem tóku gildi 14. mars á þessu ári að heimila tímabundið útgreiðslu þessa sparnaðar í mánuð fram til október 2010 að hámarksupphæð einni milljón kr.

Að sögðum þessum formála hef ég lagt fram svohljóðandi spurningar í fernu lagi til hæstv. fjármálaráðherra:

1. Hversu margir hafa nýtt sér heimild til útgreiðslu séreignarsparnaðar samkvæmt lögum nr. 13/2009 sem tóku gildi 14. mars sl.?

2. Hversu hátt hlutfall þeirra sem eiga inneign í séreignarsparnaði hefur nýtt sér heimildina?

3. Hver er heildarupphæð útgreiðslu lífeyrissjóða vegna heimildarinnar?

4. Telur ráðherra koma til greina að heimildin til útgreiðslu standi lengur en til 1. október 2010?