138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

útgreiðsla séreignarsparnaðar.

55. mál
[14:37]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef frá embætti ríkisskattstjóra og eru miðaðar við talningu núna 15. október sl. höfðu alls 38.835 einstaklingar óskað eftir heimild til útgreiðslu séreignarsparnaðar, þ.e. um miðjan þennan mánuð.

Hversu hátt hlutfall er þetta af þeim sem greitt hafa inn í séreignarsparnað á undanförnum árum? Því er til að svara að samkvæmt skattframtölum hafa tæplega 155 þúsund einstaklingar greitt í séreignarlífeyrissjóði á undanförnum árum þannig að þetta er allhátt hlutfall af þeim mikla fjölda sem er þó ótrúlega stór hluti þeirra sem á vinnumarkaði eru ef miðað er við að hann telji 170–180 þúsund manns. Það eru sem sagt um 25% þeirra sem reikna má með að eigi inneign í séreignarsparnaði sem þegar hafa ákveðið að nýta sér þessa heimild.

Heildarupphæðin sem kemur til útgreiðslu miðað við þær umsóknir eða þann fjölda sem sótt hefur um er væntanlega tæplega 24 milljarðar kr. og þar af færast um 2,4 milljarða kr. útgreiðslur yfir á næsta ár. Það þýðir að af þeirri fjárhæð sem greidd verður út í ár, sem er þá um 21,6 milljarðar, renna 5,2 milljarðar í ríkissjóð í formi tekjuskatts og um 2,8 milljarðar kr. til sveitarfélaga í formi útsvars. Af þessum útgreiðslum verða þá heildartekjurnar nálægt 6 milljarðar kr. til ríkisins og 3 milljarðar kr. til sveitarfélaganna. Einhvers staðar sá ég tölur um að hjá Reykjavíkurborg einni, þar sem um 35% þeirra eru sem sótt hafa um útgreiðslur, verði heildarútsvarstekjuaukinn um 1,1 milljarður kr. Þetta er því vissulega dálagleg búbót fyrir ríkissjóð en ekki síður þó fyrir sveitarfélögin sem fá fyrst að fullu sína útsvarsupphæð.

Ráðstöfunartekjur heimilanna, sem skiptir ekki síður máli, aukast því um 13,6 milljarða kr. á þessu ári miðað við stöðuna eins og hún var 15. október sl. Það er auðvitað engin leið að segja til um það í einstökum atriðum hvernig þessum fjármunum hefur verið varið en það er ástæða til að ætla og um það höfum við vissar vísbendingar að drjúgur hluti þessarar útgreiðslu, þessa tekjuauka heimilanna, sé varið til skuldalækkunar. Þess sér víða stað að fólk notar þennan viðbótartekjuauka eða nýtir tekjur sínar til þess að greiða niður yfirdrætti og annað í þeim dúr og býr í haginn fyrir sig í fjármálum.

Það var reiknað með því í greinargerð í lögunum, sem ég veit að hv. fyrirspyrjandi er vel kunnug, að heildarútgreiðslurnar gætu numið um 40–50 milljörðum kr. miðað við umsóknartímabilið í heild. Í ljósi þess að enn er dálítið langt í land að þeirri upphæð sé náð og miðað við að enn eigi allmargir eftir að nýta sér heimildina — en umsóknartíminn rennur út 1. október, eins og kunnugt er — gæti þetta auðvitað þýtt að talsvert yrði um útgreiðslur sem gengju fram á árið 2011. Þó svo að dregið hafi nokkuð úr þeim núna undanfarna mánuði og hægt hafi á umsóknum er ekki ósennilegt að þessi spá gæti átt eftir að ganga að verulegu leyti eftir.

Þá er að lokum spurningin hvort ástæða sé til þess nú þegar að fara að huga að því að rýmka þessar reglur eða framlengja þær vegna þess að nú styttist í að þeir fyrstu komist á endastöð níu mánaða útgreiðslutímans, þeir sem fyrstir sóttu um. Svar mitt er að það er einboðið að mínu mati að skoða það. Framkvæmdin hefur gengið vel, hún hefur gengið án verulegra vandamála, að séð verður, hjá vörsluaðilunum eða útgreiðsluaðilunum. Í þeim tilvikum sem menn eiga áfram inni séreignarsparnað sem þeir teldu sér hagstætt að nota kemur að sjálfsögðu til greina að gera eftir atvikum hvort tveggja í senn, að skoða það að framlengja umsóknartímann tímanlega en einnig að skoða hvort hækka eigi heildarfjárhæðina sem menn geta tekið út eða lengt útgreiðslutímann, hvernig sem það yrði allt saman útfært þegar það yrði ákveðið.