138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

útgreiðsla séreignarsparnaðar.

55. mál
[14:42]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir og hæstv. fjármálaráðherra fyrir svör hans. Ég er hálfslegin yfir þeim fregnum sem hæstv. fjármálaráðherra segir hér, hann telur einboðið að vert sé að skoða það að hækka eða lengja það tímabil sem fólk getur haft til þess að taka út séreignarsparnaðinn.

Séreignarskyldusparnaður er fyrst og fremst sparnaður til efri áranna. Lífeyrissjóðsgreiðslur eru þannig gerðar að þær eru ekki aðfararhæfar fari fólk í gjaldþrot þannig að þessi skref ríkisstjórnarinnar, að leyfa útgreiðslu á þessum sparnaði, voru að mínu mati alltaf hreint kolrangar.

Í utandagskrárumræðu um stöðu lífeyrissjóðanna viðurkenndi hæstv. fjármálaráðherra hér í sumar að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn væri afar hlynntur því að þetta svigrúm hafi verið gefið, að leyfa fólki að taka út þennan séreignarsparnað, því að ríkið fær að sjálfsögðu skatttekjur á móti. Nú telur hæstv. fjármálaráðherra að þetta sé mjög jákvætt fyrir hagkerfið á meðan hann neitar tillögu sjálfstæðismanna um að skattleggja raunverulega inngreiðslur í séreignarsparnaði þannig að nú verður hæstv. fjármálaráðherra að fara að ákveða hvað á að gera. (Forseti hringir.) Ég hafna því að þetta verði framlengt því að þetta er fyrst og fremst sparnaður sem fólk á að hafa þegar það eldist.