138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

47. mál
[14:48]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil beina því til hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra til hvaða aðgerða eigi að grípa til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum. Sú er hér stendur var 1. flutningsmaður að þingsályktunartillögu sem var samþykkt í vor. Þessi þingsályktunartillaga var samþykkt 31. mars 2009 þannig að það er stutt síðan og á þessari tillögu voru fulltrúar allra flokka þannig að það var þverpólitískur vilji að grípa til aðgerða til að styrkja og styðja og auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

Tillagan fól það í sér að Jafnréttisstofa ætti að fara í aðgerðir til að auka hlut kvenna í stjórnmálum en nú á að spara hjá Jafnréttisstofu. Auðvitað kosta aðgerðir peninga. Það vita flestir að eitthvað kostar það þó að hægt sé að gera ýmislegt fyrir lítið fé en það á að spara um 10% hjá Jafnréttisstofu eins og hjá öðrum stjórnsýslustofnunum. Þessi tillaga var samþykkt eftir bankahrunið, ég vil vekja sérstaka athygli á þeirri staðreynd að tillagan var samþykkt eftir að ljóst var að það þyrfti að spara í ríkisrekstri. Þrátt fyrir það er allt þingið sameinað um að beina því til hæstv. félagsmálaráðherra að hann tryggi að Jafnréttisstofa fari í aðgerðir því það er einbeittur vilji þingsins að farið verði í aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum. Núna er þetta allt að bresta á. Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að ákveða prófkjör 7. nóvember á Seltjarnarnesi og Framsóknarflokkurinn 21. nóvember, opið kjördæmisþing í Reykjavík, þannig að þetta er allt að bresta á, virðulegur forseti, og ekki seinna vænna að grípa til aðgerða til að tryggja að konur komist að í ekki minna mæli en karlar á listum til sveitarstjórna.

Þegar kosið var árið 2006, fyrir fjórum árum tæpum, náðist hlutur kvenna upp í 35,9%, það er ánægjulegt. Við höfum hins vegar reynslu af því í þinginu að við náðum upp í nánast sama hlutfall 1999. Þá var hlutfall kvenna í þinginu 34,9%. Það var eftir svona átak. Hvað skeði svo? Það kom hér geysilegt bakslag, mikið bakslag. Við duttum niður í 30% í kosningunum þar á eftir. Og í síðustu kosningum, í apríl í vor, náðum við ekki fyrra hlutfalli í þinginu. Það varð því að mínu mati að fara í átak af því að það virðist vera að þegar konur ná þeim árangri að skríða yfir 30% eða upp undir 35% þá verður fólk værukært og það er eins og það haldi að þurfi ekkert að gera í málunum og þá kemur bakslagið. Þetta megum við ekki upplifa núna, virðulegur forseti.