138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

47. mál
[15:00]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur kærlega fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga máli og jafnframt langar mig til að nota tækifærið og þakka samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu fyrir þá vinnu sem þar hefur verið unnin. Ég hlakka til að lesa þá skýrslu sem þar er orðin opinber.

Ég leyfi mér að taka aðeins landsbyggðarvinkil í þessu máli, því mér sýnist sem í raun og veru séu þessi mál í hvað mestum ólestri í minnstu sveitarstjórnunum, þar sem t.d. er hlutbundin kosning. Það er kannski ekki keppikefli margra kvenna að fara í það að karpa þar við nágranna sína, þannig að ég held að við þurfum að taka þann vinkil sérstaklega. Við þurfum að vinna markvisst að því að fá fleiri konur í minnstu sveitarstjórnunum til þess að taka þátt. Og það er ekki nóg að það sé jafn hlutur, heldur þurfum við virkilega að vinna að því að það sé jafn hlutur kvenna og karla í efstu sætunum í sveitarstjórnum.