138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

rannsóknir og áætlanagerð í ferðaþjónustu.

48. mál
[15:08]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil beina þeirri fyrirspurn til hæstv. iðnaðarráðherra hvort standi til að efla rannsóknir og áætlanagerð í ferðaþjónustu í ljósi vaxandi ferðamannafjölda á landinu á síðustu árum. Þessi fyrirspurn tengist að vissu leyti þingsályktun sem sú er hér stendur er 1. flutningsmaður að og kemur vonandi bráðlega til umræðu hér í þinginu, en það eru þingmenn allra flokka á þeirri þingsályktunartillögu. Hún gengur út á að farið verði í áætlanagerð varðandi ferðamennsku á miðhálendinu. Til þess að geta gert áætlanir þarf að rannsaka, svo maður viti nú hvernig maður ætlar að gera áætlanirnar. Maður þarf að hafa grunn til að byggja á. Satt best að segja vekur það mikla furðu hvað við höfum verið sofandi varðandi rannsóknir á sviði ferðamála.

Ég vil draga það fram að það eru þrjár greinar sem afla gjaldeyristekna að mestu leyti hér á Íslandi. Það er í fyrsta lagi stóriðjan, en tæplega 30% af gjaldeyristekjum okkar koma frá stóriðju. Þar á eftir er sjávarútvegur, 26,3% af gjaldeyristekjum koma þaðan og síðan er það ferðamannaþjónustan sem er með 17%. Þetta er því stór atvinnugrein.

Við erum að rannsaka gífurlega mikið varðandi stóriðjuna, undirbúa það allt. Og líka varðandi sjávarútveginn. Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma hefur kostað hundruð milljóna, rannsóknirnar sem lúta að því. Hafrannsóknastofnun, ég held að hún taki milljarð á næsta ári samkvæmt fjárlögunum í það sem snýr að rannsóknum í sjávarútvegi. En við setjum allt, allt of lítið í rannsóknir í ferðamálum.

Ég vil nefna það að þó er búið að rannsaka eilítið og þær rannsóknir eru mjög mikilvægar. Það er búið að rannsaka hvernig er hægt að taka á móti ferðamönnum á Suðurlandi. Þar var rannsókn unnin af Önnu Dóru Sæþórsdóttur, Rögnvaldi Ólafssyni og Rannveigu Ólafsdóttur. Konurnar sem ég nefni hér eru lektorar í ferðamálafræðum við HÍ. Það var beðið um að fara í framhaldsrannsókn á þeirri undirbúningsrannsókn sem fór fram. Því var hafnað.

Það er svo merkilegt að við skulum ætla í framtíðinni að taka á móti ferðamönnum sem voru 560 þús. á síðasta ári, þá voru skemmtiferðaskipin talin með, en þar komu 60 þús. gestir í land, og við erum svo skammt komin á veg varðandi rannsóknirnar. Það verður að spýta hérna í verulega, rannsaka þolmörkin á fjölsóttu ferðamannastöðunum okkar, hvað þeir staðir þola mikið af gestum áður en þeir fara að grafa undan eigin tilvist. Þetta verður að rannsaka og við verðum að setja fjármagn í það. Ég vil gjarnan heyra hvað hæstv. iðnaðarráðherra hefur að segja um framtíðina í þessu.