138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

rannsóknir og áætlanagerð í ferðaþjónustu.

48. mál
[15:12]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem upp ekki síður sem ráðherra ferðamála, vegna þess að þannig er ég nú titluð á ensku, eins merkilegt og það nú er þó það hafi ekki skilað sér í íslenska heiti míns ráðuneytis, en svo sannarlega er ég það, vegna þess að ferðamennskan og ferðaþjónustan skipar auðvitað æ stærri sess í samfélagi okkar og atvinnulífi og er einn af undirstöðuatvinnuvegum og ein af undirstöðum gjaldeyrisöflunar. Það hefur orðið, eins og réttilega hefur komið fram hjá hv. þingmanni, gríðarlega mikil aukning ferðamanna á undanförnum árum. Það má eiginlega segja að undanfarinn áratug hafi verið nokkuð jafn vöxtur, en það hefur komið kippur núna á milli ára þegar einstakir mánuðir eru bornir saman. Sem dæmi má nefna að 12% aukning ferðamanna var milli ágústmánaðar núna í ár og í fyrra. Þetta er auðvitað alveg gríðarlegur vöxtur.

Það þýðir ekki fyrir okkur Íslendinga, og ég er alveg sammála hv. þingmanni í því, að hugsa bara til markaðssóknar eins og við höfum verið að gera. Við höfum sett fjármagn til þess að sækja fleiri ferðamenn en það er ekki nóg, vegna þess að þegar við fáum fleiri ferðamann verðum við að hugsa um það hvernig við getum í fyrsta lagi jafnað þeim yfir landið, dreift þeim betur, og í öðru lagi jafnað yfir árið líka. Þess vegna skipta rannsóknir öllu máli til að skapa þessar undirstöður. Það er nefnilega ótvírætt að rannsóknir á nýsköpun eru grunnur að vexti og viðgangi atvinnugreina, það á ekki síður við í ferðaþjónustunni og grunnforsenda þess að þróun og framfarir og aukin verðmætasköpun eigi sér stað.

Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Hólum, Samtök ferðaþjónustunnar og Ferðamálastofa starfrækja sameiginlega Rannsóknamiðstöð ferðamála, sem er miðstöð rannsókna og fræðslu og samstarfs í greinum sem tengjast ferðamálum. Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar á íslenskri ferðaþjónustu. Nægir þar að nefna t.d. að Ferðamálastofa hefur um árabil staðið fyrir könnunum meðal íslenskra og erlendra ferðamanna á Íslandi. Jafnframt stóð Ferðamálastofa ásamt Útflutningsráði fyrir rannsókn á þessu ári á viðhorfi almennings í þremur löndum til Íslands, en rannsóknir sem þessar geta gefið mikilvæg innsýn í stöðu Íslands á helstu mörkuðum. Og til stendur að halda þessum könnunum áfram.

Nokkrar þolmarkarannsóknir, af því þær voru nefndar hér áðan, hafa líka verið gerðar, enda er eins og ég sagði ferðamannafjöldinn mjög vaxandi. Þess vegna eru þær ekki síst mikilvægar, vegna þess að ef við eflum þær ekki getum við lent í því að landið líði fyrir aukningu ferðamanna. Sömuleiðis mun upplifun ferðamannsins sjálfs á landi okkar skaðast.

Ferðamálastofa hefur einnig stutt aðila í háskólasamfélaginu sem standa fyrir rannsóknum á áhrifum ferðaþjónustu, náttúru og umhverfi. Öflun og úrvinnsla upplýsinga sem leggja grundvöll að stefnumótun og áætlanagerð hefur verið hjá Ferðamálastofu og er ríkur vilji til að efla þá stefnumótun. Þá hefur á þessu ári verið unnið að greiningu á möguleikum á tengslum við gæða- og umhverfisvottunarmál. En betur má ef duga skal.

Við verðum að gera betur hvað rannsóknirnar varðar í vaxandi atvinnuvegi og þar er ég hjartanlega sammála hv. fyrirspyrjanda, vegna þess að þrátt fyrir allt þetta má segja það halli verulega á ferðaþjónustuna hvað rannsóknir varðar í samanburði við t.d. sjávarútveg sem var nefndur hér áðan og líka í samanburði við landbúnað og aðrar atvinnugreinar, vegna þess að það starfa eingöngu um 20 manns á vegum hins opinbera að rannsóknum á ferðaþjónustu þegar allt er talið. Það er hreinlega ekki nóg, sem er umtalsvert minna heldur en í rannsóknum við annan iðnað, eins og réttilega kom fram hér áðan.

Þessu þarf að breyta, virðulegi forseti, og þess vegna hef ég farið fram á það að Ferðamálastofa kalli til helstu rannsóknaraðila í ferðaþjónustu þegar á næstu dögum til að kanna grundvöll fyrir auknu samstarfi þeirra og hvernig rannsóknarumhverfi greinarinnar getur orðið sem skilvirkast. Það liggur þegar fyrir ítarleg forgangsröðun rannsóknarverkefna í ferðaþjónustu sem mun gagnast vel í þessu samstarfi.

Fyrsta verkefnið sem ég tel brýnt að hefja sem allra fyrst er gerð landnýtingaráætlunar fyrir greinina, sem er algjörlega nauðsynleg m.a. vegna vinnu við rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma sem nefnd var hér áðan, en einnig er ég að horfa til þingsályktunartillögu fyrirspyrjanda, sem nú liggur fyrir þinginu, þar sem eru færð mjög góð rök fyrir nauðsyn slíkrar áætlunar fyrir miðhálendið. Þessi vinna verður a.m.k. að hluta til fjármögnuð af Ferðamálastofu og er ég viss um að ég og hv. þingmaður munum eiga gott samstarf um framhald þess máls.

Þá munu rannsóknir í ferðaþjónustunni líka fá sinn sess í byggðaáætlun fyrir árin 2010–2013, sem ég mun leggja fram á Alþingi innan skamms.

Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að það er alveg ljóst að rannsóknir í ferðaþjónustu munu fá ríkari sess í forgangsröðun útgjalda til ferðamála hjá opinberum aðilum og hjá ríkinu og einkaaðila verðum við líka (Forseti hringir.) að fá með okkur inn í þessa vinnu, vegna þess að annars mun greinin sjálf líða fyrir þetta. Því þurfum við öflugt samstarf á þessu sviði.