138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

rannsóknir og áætlanagerð í ferðaþjónustu.

48. mál
[15:21]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þá fínu umræðu sem hér hefur farið fram og þær ábendingar sem fram hafa komið. Það er nefnilega vissulega rétt að auðvitað þurfum við að hafa víðtækt samráð um land allt, þess vegna hef ég líka lagt mikla áherslu á að við reynum að viðhalda því stoðkerfi sem er fyrir ferðaþjónustuna um landið þrátt fyrir að við þurfum að horfa fram á niðurskurð í ríkisfjármálum og að við höldum t.d. úti menningarsamningum sem snúa að ferðaþjónustunni og líka að byggðar verði upp öflugar markaðsstofur landshlutanna.

Tækifæri Vatnajökulsþjóðgarðs eru svo sannarlega mörg – mýmörg. Þar tel ég að við eigum eftir að sjá alveg ofboðslega mikil og jákvæð áhrif á ferðaþjónustuna til lengri tíma, í kringum þann þjóðgarð.

Það er nefnilega rétt sem hv. fyrirspyrjandi sagði, og það er að mínu mati jafnáríðandi að rannsaka áhrif ferðamanna á náttúru Íslands eins og áhrif hugsanlegra virkjana eða annars konar nýtingar, vegna þess að of margir ferðamenn geta líka verið skaðlegir náttúrunni. Að sama skapi getur það líka verið heldur óþægileg upplifun að vera í fagurri náttúru Íslands í mannþröng. Að þessu þurfum við að huga. Þess vegna skiptir máli að dreifa ferðamönnunum um landið.

Ég er líka að horfa til þess að okkur takist að byggja hér upp raunverulega heilsársferðaþjónustu eins og við erum að sjá mjög góðan vísi að víða. Það felur í sér að við þurfum að ráðast í mjög markvissa stefnumörkun á því sviði. Þess vegna hefur núna verið að starfa, ég náði nú ekki að segja frá því áðan, nefnd á mínum vegum sem er að kortleggja sóknarfæri okkar á sviði vellíðunarferðaþjónustu, svokallaða wellness-ferðaþjónustu, sem við eigum að hafa hér alla burði í. Það eru ferðamenn sem ferðast utan hins hefðbundna sumarleyfistíma og leita mikið til Asíu og víðar. Við gætum átt full sóknarfæri (Forseti hringir.) og við Íslendingar eigum að sækja bita úr þeirri köku. Sú stefnumörkun fer fram núna í iðnaðarráðuneytinu hvernig við förum að því.