138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

tenging kvóta við byggðir.

66. mál
[15:24]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðrún Erlingsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tel að flestir íbúar sjávarbyggða geti verið sammála um það óöryggi sem fylgir núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Það er gæfa margra sjávarbyggða að útgerðarmenn hafa sýnt tryggð við heimabyggð og gert út frá staðnum. Aðrar byggðir hafa ekki verið eins heppnar og aflanum, atvinnunni og lífsbjörginni verið siglt í burtu án þess að íbúar hafi komið neinum vörnum við. Í samtölum mínum við sjómenn og landverkafólk, sveitarstjórnarmenn og útgerðarmenn, hafa ýmsar hugmyndir komið fram og m.a. sú hvort framkvæmanlegt sé að tengja kvóta við tiltekna sjávarbyggðir þannig að fiskvinnslufyrirtæki geti keypt kvóta án framsalsheimilda til nýtingar í heimabyggð. Slík heimild tryggði eflaust betur atvinnuöryggi í sjávarplássum, ekki væri sama hættan á að kvótanum yrði siglt í burtu og aflinn yrði unninn í heimabyggð.

Fiskveiðistjórnarkerfið er í endurskoðun og skoðanir eðli málsins samkvæmt misjafnar. En vinna sáttanefndar er í gangi og væntingar eru gerðar til þess að hún komi með hugmyndir að nýju fiskveiðistjórnarkerfi sem landsmenn geta lifað við án þess að kollvarpa atvinnugreininni.

Hugmynd sú sem hér er lögð fram er því til þess ætluð að tryggja að einhverju leyti atvinnuöryggi sjávarbyggða. Ég spyr því hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hvort hann telji að til greina komi við endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu að tengja hluta kvótans við tilteknar sjávarbyggðir þannig að fiskvinnslufyrirtæki geti keypt kvóta án framsalsheimildar til nýtingar í heimabyggð.