138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

tenging kvóta við byggðir.

66. mál
[15:26]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðrúnu Erlingsdóttur fyrir þessa fyrirspurn og tek undir þann tón sem hv. þingmaður slær í henni, þ.e. að hvernig tryggja megi sem best öryggi sjávarbyggðanna, þess fólks sem þar býr og á allt sitt undir því að geta nýtt og átt aðgang að sjávarauðlindinni sem fiskurinn er.

Markmið laganna um stjórn fiskveiða er, eins og tekið er fram þar, að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu fiskstofna og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Um það hefur verið deilt hvernig til hefur tekist hvað byggðamálin varðar og ég tek undir þau áhyggjuorð sem hv. þingmaður hafði hér um hvernig einmitt þetta fiskveiðistjórnarkerfi hefur leikið einstakar byggðir.

Ég verð þó að minna á að allnokkur atriði eru í gangi til þess að ná þessu markmiði að hluta. Má þar nefna línuívilnun þar sem landbeitingu er gert hærra undir höfði heldur en öðrum og krafa um að bátar geri út frá ákveðinni byggð og leggi þar upp. Það má nefna byggðakvótann, þó svo hann sé að vísu ekki neinn óskadraumur og ekki byggðatenging í sjálfu sér, þá er engu að síður þar verið að reyna að koma til móts við þessa ágalla í fiskveiðistjórnarkerfinu.

Þá vil ég líka nefna strandveiðarnar sem voru hafnar á síðasta sumri, sem einnig voru svæðistengdar og styrkja stöðu þeirra sem skemmsta leið eiga á miðin.

Hins vegar tek ég heils hugar undir það mikla öryggisleysi sem sjávarbyggðirnar hafa margar búið við, að geta á einni nóttu staðið frammi fyrir því að þær aflaheimildir sem hafa staðið undir atvinnulífi á viðkomandi stöðum séu seldar burt úr byggðarlaginu. Ég hef því lagt áherslu á að það sé hluti af því sem þessi endurskoðunarhópur, sem hv. þingmaður minntist á og hefur verið skipaður til þess að endurskoða stóru ákvæðin varðandi stjórn fiskveiða, eigi að skoða það, þ.e. hvernig megi skapa meiri sátt og öryggi í kringum nýtingu þessara auðlinda.

Einn stór hluti af þeirri ósátt, ef það má orða svo, er einmitt þetta öryggisleysi byggðanna og það hvernig fólkið í byggðunum sjálfum hefur verið réttlaust hvað varðar aðgengi og að tryggingum fyrir þessum náttúruauðlindum. Ég tel því að þetta sé eitt af veigameiri atriðum sem endurskoðunarhópurinn á að taka til skoðunar sem hluta af því að búa til hagkvæmt og gott fiskveiðistjórnarkerfi, en sem einnig tekur tillit til þessara mikilvægu samfélagsþátta. Það er nú svo að þó að við hugsum mikið um hagkvæmni og hagræðingu og það hvernig einstaka rekstrarþættir geta og útgerðin getur borið sig fjárhagslega, þá hefur hún líka gríðarlega samfélagslega ábyrgð.

Ég legg áherslu á að einmitt sú stefna að stunda sjálfbærar fiskveiðar er ekki aðeins að vernda og nýta fiskstofnana og auðlind sjávarins líffræðilega á sjálfbæran hátt heldur ber líka að gera það á samfélagslega sjálfbæran hátt. Það er fólkið í landinu, byggðirnar sem eiga sinn hlut og sitt öryggi og í því felst ekki hvað síst í mínum huga hugtakið sjálfbærar fiskveiðar.

Ég heiti því að leggja þessari hugmyndafræði lið í umræðunni, en annars treysti ég líka þeim hópi sem hv. þingmaður minntist á og ég hef skipað, til að taka á þessu máli, ég treysti honum til að horfa til allra þátta hvað þetta varðar. En minn hugur og mitt hjarta slær í sömu átt og hv. þingmanns hvað það varðar að aðgerðir eiga að tryggja öryggi sjávarbyggðanna. Ég held líka að þannig séum við að reka hvað hagkvæmastan sjávarútveg þegar til lengri tíma er litið.