138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

merking kvikmynda áhorfendum til aðvörunar.

65. mál
[15:34]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni og fyrirspyrjanda Guðrúnu Erlingsdóttur, fyrir þessa fyrirspurn.

Nú þegar er í gildi ákveðin lagasetning um merkingar á kvikmyndum og tölvuleikjum og það leiðir af ákvæðum laga um eftirlit með aðgengi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum, nr. 62/2006, verklagsreglum sem svonefndum ábyrgðaraðilum ber að setja sér samkvæmt lögunum og þeim alþjóðlegu skoðunarkerfum sem ábyrgðaraðilar hafa tekið í notkun, þannig að sú skylda er í raun og veru þegar fyrir hendi að ábyrgðaraðilar merki kvikmyndir og tölvuleiki.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laganna er tvenns konar aldursflokkun á kvikmyndum og tölvuleikjum. Annars vegar svokallaðar ofbeldiskvikmyndir og tölvuleikir og hins vegar kvikmynd eða tölvuleikur sem ógnar velferð barna. Ofbeldiskvikmynd eða tölvuleikur teljast þær kvikmyndir eða tölvuleikir þar sem sérstaklega er sóst eftir að sýna hvers kyns misþyrmingar, hrottalegar drápsaðferðir á mönnum og dýrum og teljast geta haft skaðleg áhrif á sálarlíf barna. Kvikmynd eða tölvuleikur sem ógnar velferð barna telst vera kvikmynd eða tölvuleikur þar sem inntak, efnistök eða siðferðisboðskapur getur vegna orðfæris eða athafna haft alvarleg, skaðvænleg áhrif á líkamlegan, andlegan og eða siðferðilegan þroska barna, einkum og sér í lagi efni sem felur í sér klám.

Merkingarnar sem fyrir hendi eru gilda auðvitað og þó að þessar reglur séu einkum hugsaðar með börn í huga þá eru merkingarnar þannig séð algildar. Þær eiga að vera aðgengilegar öllum og snúast annars vegar að aldursmerkingum og hins vegar að því á hverju merkingin er byggð. Þannig er t.d. kynlíf eða annað slíkt merkt með sérstöku merki, ofbeldi með öðru merki o.s.frv.

Samkvæmt 3. gr. laganna skal ábyrgðaraðili setja sér verklagsreglur um framkvæmd matsins í samræmi við alþjóðlega viðurkennd skoðunarkerfi fyrir kvikmyndir og tölvuleiki. Í verklagsreglunum á að taka mið af barnaverndarsjónarmiðum, einkum líta til söguefnis, orðfæris, beitingu ofbeldis, sýningu nektar og kynlífs og neyslu fíkniefna. Þá segir í 3. gr. að öll eintök kvikmyndar eða tölvuleiks og hvers konar umbúðir eigi að vera greinilega merktar upplýsingum um aldurstakmörk.

Eftirlit með framkvæmd laganna hefur verið í höndum Barnaverndarstofu í samstarfi við lögreglu. En nú liggja reyndar fyrir ákveðnar hugmyndir í nýju frumvarpi um fjölmiðla, sem verður kynnt á næstu dögum og er þegar hafin kynning á, að færa þetta eftirlit til nýrrar Fjölmiðlastofu. Þar af leiðandi gæti þetta breytt eftirliti með framkvæmd laganna.

Svo ég fari aðeins nánar út í þetta fyrirkomulag á mati og merkingum kvikmynda og tölvuleikja, þá hafa framangreindir ábyrgðaraðilar sameinast um sameiginleg alþjóðleg skoðunarkerfi fyrir kvikmyndir og tölvuleiki, svonefnt Kijwijzer fyrir kvikmyndir, og svonefnt PEGI-kerfi fyrir tölvuleiki. Samræmd aldursflokkun og innihaldsmerking myndefnis í kerfunum fer þannig fram að mynd sem er t.d. leyfð öllum til sýningar er auðkennd með bókstafnum L á grænum grunni. Fyrir það efni sem er aldursflokkað eru flokkarnir 7 ára, 12 ára, 16 ára og 18 ára með mismunandi litamerkingum. Til viðbótar aldursflokkamerkingu eru, eins og ég greindi frá áðan, sérstakar innihaldsmerkingar með táknmyndum fyrir ofbeldi, kynlíf, eiturlyf, hræðslu, fordóma eða misrétti og blótsyrði. Þannig að í raun og veru á þetta kerfi að vera til staðar, spurningin er hins vegar hvernig framkvæmdin er og hvernig eftirlit með henni er.

Hv. þingmaður spurði á hverju ég byggði afstöðu mína. Það liggur fyrir að það hefur verið sátt í samfélaginu um að auðkenna beri með merkingum og jafnvel beri að fylgja því strangar eftir að það sé merkt. Þetta á ekki síst við um tölvuleiki sem eru auðvitað gagnvirkir, ólíkir kvikmyndum og byggjast hreinlega á því að sá sem leikur í leiknum nær árangri, hvort sem það er með því að drepa fólk eða nauðga því eða misþyrma því á annan hátt. Þetta getur auðvitað haft mjög skaðleg áhrif á þroska, ekki síst ungra barna. Það skiptir því mjög miklu máli að merkingar sem þessar séu með réttum hætti á hverjum tíma.