138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn.

[10:34]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég veit ekki hvort þessu hefur verið mótmælt sem hv. þingmaður gerði að umræðuefni með formlega skriflegum hætti en því hefur verið mótmælt. Ég hef sjálfur gert það á fundi sem ég átti með Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þar fórum við rækilega yfir þessi mál og ég kom sjónarmiðum okkar Íslendinga alveg skýrt á framfæri. Hins vegar þarf hv. þingmaður ekki að vera undrandi á því að þessu sé hnýtt saman. Það var í tíð fyrri ríkisstjórnar þegar Sjálfstæðisflokkurinn hafði bæði seðlabankastjóra, forsætisráðherra og fjármálaráðherra sem þessu var bókstaflega hnýtt inn í samninginn með sérstökum viðauka sem skrifað var undir af Davíð Oddssyni, þáverandi seðlabankastjóra, og Geir Haarde, þáverandi forsætisráðherra, þann 15. nóvember á ári hrunsins. (Gripið fram í.) Ég er ekkert að afsala mér ábyrgð á því en þannig var þetta gert þannig að Sjálfstæðisflokkurinn veit allt um þetta.

Að því er varðar síðan það hvort ég telji að tími sé kominn til að endurskoða áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins núna miðað við breytt viðhorf í heiminum og hugsanlega breytt viðhorf líka heima vegna þess að margt vinnur með okkur þessa dagana — eins og hv. þingmaður veit standa Íslendingar og íslenska þjóðin sig betur á flestum sviðum en gert var ráð fyrir samkvæmt þeirri áætlun. Atvinnuleysi hér er t.d. snöggtum minna en átti að vera samkvæmt þeirri spá. Samdráttur í landsframleiðslu er einnig snöggtum minni en talið var að mundi verða þannig að ég tel að það sé bara eðlilegt að menn setjist niður og skoði þetta. Sömuleiðis hefur það komið skýrt fram að menn vilja athuga það mjög rækilega hvort þörf sé á því að taka öll þau lán sem þessi áætlun býður upp á. Það munu menn gera. Ég er alltaf reiðubúinn til að skoða allar þær góðu hugmyndir sem koma frá Sjálfstæðisflokknum og sem betur fer (Forseti hringir.) eru þær ekki fáar þessa dagana.