138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

svör við spurningum Evrópusambandsins.

[10:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Eins og hæstv. utanríkisráðherra er löngu orðið ljóst ber ég mikinn og hlýjan hug til hans og ég veit að það er gagnkvæmt. Mig langar hins vegar að minna hann á, af því að hann er dálítið eldri en ég, að hann er búinn að vera í ríkisstjórn býsna lengi, m.a. í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Hæstv. ráðherra og ég deilum, þó hvor með sínum formerkjunum, miklum áhuga á Evrópusambandinu og þeim spurningalistum sem þar eru farnir af stað. Mig langar að spyrja hann varðandi frétt sem var í Morgunblaðinu. Það stendur í þeirri samþykkt sem hér var gerð að þeir hópar sem eiga að fjalla um einstök málefni, einstök svið, eigi að undirbúa svör. Hér stendur, með leyfi forseta:

„Þessir hópar halda utan um samningaviðræður, hver á sínu sviði, allt frá upphafi ferlisins til enda. Það felst m.a. í því að undirbúa svör við spurningum sambandsins.“

Nú er farið að senda út spurningalistana og svörin, ætli þau séu ekki bara öll farin. Mig langar að spyrja ráðherrann hvort hann telji að það sé eðlileg stjórnsýsla að fara svona gróflega á svig við það sem samþykkt var í þinginu og virða að vettugi af því að mönnum er tíðrætt varðandi Icesave, Evrópusambandsumsókn og annað, að greinargerðirnar hafi lagalegt gildi og þessi lögskýringargögn. Þá hlýtur greinargerðin, með þeirri samþykkt sem var gerð varðandi umsókn að Evrópusambandinu, að gilda jafnsterkt og annað. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort það séu eðlileg vinnubrögð gagnvart þinginu að fara svona á svig með því að senda þessi svör áður en búið er að skipa í þessa ágætu hópa.