138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

svör við spurningum Evrópusambandsins.

[10:42]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Frú forseti. Það vill nú svo skemmtilega til að sá sem hér stendur er ekki skráður í eitt einasta kaupfélag í heiminum. En til að upplýsa ráðherrann eru um 800 milljónir manna hins vegar skráðir í samvinnufélög og kaupfélög víða um heim þannig að það eru nokkuð fleiri til en þessi ágætu tvö félög sem hann nefndi. Ég hef grun um að áhugi hans á a.m.k. öðru þeirra sé heldur meiri en minn. En samt kom fram í ræðu hæstv. ráðherra, sem hann svaraði í rauninni ekki og viðurkennir með því það sem gert var undir hans stjórn, að það er algerlega farið á svig við það sem Alþingi samþykkti. Vilji Alþingis um að þeir ráðgefandi hópar sem hér á að skipa fari yfir spurningar og svör áður en það er sent út til Evrópusambandsins er virtur að vettugi. Það stendur í þeirri samþykkt sem meiri hluti stóð að á Alþingi og það er það sem ber að fara eftir, ekki einlægur vilji hæstv. ráðherra.