138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

brottvísun hælisleitenda.

[10:49]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra svaraði eiginlega engum af þeim spurningum sem ég lagði fyrir. Var hæstv. ráðherra meðvitaður um að Noor sem er um tvítugt hefði verið settur beint út á götu með enga peninga í Aþenu? Hann hefur enga pappíra til að sanna hver hann er, hann getur ekki tekið á móti fjárframlögum frá Íslandi, hann getur ekki skipt peningunum sínum, hann er á götunni og á það á hættu að vera handtekinn af óeirðalögreglu í hvert skipti sem hann labbar um göturnar í Aþenu. Hann á það líka á hættu að vera sendur aftur til Íraks.

Hann mætti á skrifstofu útlendingaeftirlitsins í Grikklandi og þar voru fleiri hundruð manneskjur þannig að hann gat ekki fengið sín mál afgreidd og mun sennilega ekki fá það á næstunni þannig að hann lifir í stöðugum ótta. Hefði ekki verið í lagi að leyfa honum að vera hér í 15 daga á meðan áfrýjað var?