138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

snjómokstur í Árneshreppi.

[11:01]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál upp, snjómokstur í Árneshreppi, eftir Icesave-umræðu, það er eðlilegt. Eins og fram kom hjá hv. þingmanni er unnið eftir svokallaðri G-reglu, snjómokstursreglu, hvað varðar Árneshrepp. Þá er mokað tvisvar í viku, vor og haust, en vortíminn er talinn vera frá miðjum mars og hausttíminn til 1. nóvember og getur verið gat þar á milli. Þannig hefur þetta verið. Ég held hins vegar að það hafi verið bætt svolitlu við þetta á síðasta vetri og ég var töluvert stoltur af því að það var gert vegna þess að Árneshreppingar eru ekki margir en þeir láta heyra vel í sér og eiga öfluga talsmenn.

Við þurfum að skoða þetta allt saman út frá niðurskurði, alveg eins og ferjusiglingar, flug og rútubíla og rekstur Vegagerðarinnar þannig að þetta er til skoðunar eins og annað. Hins vegar vil ég taka það skýrt fram að ég hugsa alltaf hlýlega til Árneshrepps, þessa minnsta sveitarfélags landsins. Hvort þarna verður aukin þjónusta eða henni haldið við get ég ekki sagt um núna en hugsa, eins og ég segi, vel til sveitarfélagsins.

Ég vil líka taka það skýrt fram að í Árneshreppi höfum við náð svolitlum árangri. Árneshreppur er t.d. kominn með háhraðasamband og GSM-samband sem ekki var áður og þetta er einn af þeim stöðum sem við bjóðum út flug til. Þangað er flogið tvisvar í viku í ríkisstyrktu flugi. Þetta, virðulegi forseti, vildi ég segja á þessum fyrstu tveimur mínútum en ítreka að allt þetta er til skoðunar og sú vinna er ekki búin. (Forseti hringir.) Ég veit ekki hvort við ljúkum þessu eftir viku eða hálfan mánuð en þá verður ljóst hvernig við þurfum að stilla þessu upp fyrir komandi vetur.