138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

snjómokstur í Árneshreppi.

[11:04]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég er ekki viss um að ég geti lofað því að sama snjómokstursreglan verði á Hellisheiðinni eins og í Árneshreppi enda er þessu stillt svona upp út af umferð og öðru. En það sem er vandamálið við Árneshrepp er ekki endilega snjómokstursreglan heldur sá vegur sem er til sveitarfélagsins sem er mjög erfiður. Þegar einhver snjór er verður mjög fljótt ófært og þá er erfitt að halda veginum opnum. Það getur jafnvel verið þannig að það lokist strax á eftir snjóruðningstækinu þannig að enginn komist þar um.

Ég hef líka fengið áskorun frá íbúa þessa sveitarfélags og ég veit að þessi hreppur á sér marga stuðningsmenn í sal Alþingis. Við þurfum að vinna eftir því en ég ítreka það sem ég sagði, virðulegi forseti, Vegagerðin er háð niðurskurði eins og allar aðrar ríkisstofnanir og þess vegna er verið að vinna þessa vinnu. En við skulum sjá hvernig okkur tekst til með Árneshrepp vegna þess að íbúar hans eiga svo sannarlega betra skilið en það sem þeir búa við í dag.