138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:40]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í 2. gr. frumvarpsins sem við fjöllum um hérna í dag segir þetta:

„Ekkert í lögum þessum felur í sér viðurkenningu á því að íslenska ríkinu hafi borið skylda til að ábyrgjast greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi.“

Engin skylda en gríðarlega mikil ábyrgð. Þessi málflutningur stenst enga skoðun, hæstv. fjármálaráðherra. Ef engin er lagaskyldan, hvers vegna erum við þá að taka á okkur allar greiðslurnar? Ég var talsmaður þess að við reyndum með samkomulagi að finna lausn þessa máls í viðræðum við Breta og Hollendinga en ekki þannig að niðurstaðan jafngilti því að við hefðum tapað málinu með húð og hári fyrir dómstólum.