138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:48]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er dálítið dapurlegt að hlusta hér á alþingismenn úr ræðustóli eða með frammíköllum gera í raun og veru allt sem orka þeirra leyfir til að rífa niður afraksturinn af vinnu Alþingis hér í sumar. (BjarnB: Þú ert búinn að því.) (Gripið fram í.) Ég tók það einmitt skýrt fram … (Gripið fram í.) Krakkar mínir, eigum við ekki bara að vera róleg? [Hlátur í þingsal.]

Ég sagði hér í minni ræðu (Gripið fram í.) að Alþingi gæti glaðst yfir því að vinna sumarsins hefði sett mark sitt á endanlegan frágang málsins með afdráttarlausum hætti, (Gripið fram í.) það væri nú búið um það með meira efnahagslegu öryggi en áður. Ég gaf Alþingi alveg sérstaklega „kredit“ fyrir það að vinna þess hefði skilað miklum árangri. En það þarf þessar breytingar og þessa aðlögun að samningunum til þess að fullnusta niðurstöðuna. (Gripið fram í.) Það er það sem hér er á ferðinni og ég fór rækilega yfir það í löngu máli, frú forseti. Hefði ég haft tíu mínútur (Gripið fram í.) í viðbót hefði ég getað gert það enn betur. (Gripið fram í.) Ég fór rækilega yfir það og bar það saman við frágang Alþingis (Forseti hringir.) í sumar hvernig þetta er gert, að uppistöðu til tekið inn í viðaukana, afgangurinn stendur áfram í lögum.

(Forseti (SF): Forseti vill að gefnu tilefni biðja bæði hv. þingmenn og hæstv. ráðherra að gæta hófs í orðavali.)