138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:09]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef hlustað á formann Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarna Benediktsson, tala um það samkomulag sem hér er verið að ræða. Ástæðan fyrir því að ég kem í ræðustól í andsvar við hv. þingmann er að spyrja hann einfaldrar spurningar. Þá þarf ég að fara aftur til 4. október í fyrra þegar Tryggvi Þór Herbertsson, sem nú er hv. þingmaður en var þá efnahagsráðgjafi forsætisráðherra þáverandi ríkisstjórnar, Geirs H. Haardes, var í viðtali … (Gripið fram í.) Nei, hann var ekki efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar, hann var ekki ráðinn af ríkisstjórninni, hann var ráðinn af forsætisráðherra. (Gripið fram í.) Hann segir í BBC (Gripið fram í.) þar sem verið var að tala um að í kjölfar fregna af erfiðleikum í íslensku efnahagslífi hafi breskir viðskiptavinir nú vaxandi áhyggjur af innstæðum sínum. Þá fullvissaði þessi efnahagsráðgjafi fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, núverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins í liði hv. þm. Bjarna Benediktssonar, breska sparifjáreigendur um að innstæður þeirra í íslenskum bönkum, Kaupþingi og Landsbanka, væru öruggar. Tryggvi sagði í viðtalinu að yfirvöld gætu og mundu grípa inn í ef til þess kæmi. Það er öruggt að við munum bjarga bönkunum, sagði þessi hv. núverandi þingmaður. Því spyr ég nú hv. þm. Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, sem fer mikinn í þessari andstöðu, um hvort hann hafi ekki verið sammála því sem fyrrverandi efnahagsráðgjafi forsætisráðherra skýrði frá í BBC 4. október í fyrra?