138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:13]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg 100% sammála því sem þeir undirrituðu á þessum tíma. Hvað voru þeir að undirrita? Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra hefur lesið þennan 9. tölul. yfirlýsingarinnar frá upphafi til enda. Það segir ekkert annað hér en þetta: Ísland hefur heitið því að virða skuldbindingar (Gripið fram í.) á grundvelli innstæðutryggingarkerfisins gagnvart öllum tryggðum innlánshöfum. (Gripið fram í: Hverjar eru skuldbindingarnar?) Þetta er málstaður okkar frá upphafi þessa máls. Við erum tilbúin til að virða allar okkar skuldbindingar. (Samgrh.: Við samþykktum það ...) En það er greinilegt að hæstv. ráðherra hefur komist að þeirri niðurstöðu að þetta þýði það að við þurfum að taka á okkur ríkisábyrgð á allri upphæðinni. Hann er greinilega þeirrar skoðunar að túlkun á innstæðutryggingartilskipuninni leiði til þess að það sé skylda til að veita ríkisábyrgðina. Þess vegna mætti velta því fyrir sér (Gripið fram í.) hvort hæstv. ráðherra sé ósammála því sem segir í 2. gr. frumvarpsins, að okkur beri engin lagaleg skylda til að gera þetta.