138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:15]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mönnum verður tíðrætt hér um pólitískar skotgrafir og óábyrga umræðu. Í tilefni af því langar mig að rifja upp, með leyfi forseta, ummæli hv. þm. Bjarna Benediktssonar, vegna þess að honum hefur orðið tíðrætt um lagalega úrlausn í þessu máli, sem hann lét falla þann 28. nóvember 2008 í þingræðu.

Þar segir hann, með leyfi forseta:

„Ég held að það sé afskaplega mikil einföldun á þessu máli öllu saman að telja í raun og veru að það hafi verið valkostur fyrir íslensk stjórnvöld að standa stíf á lögfræðilegri túlkun og halda henni til streitu, jafnvel fyrir dómstólum, hvort sem það væri á alþjóðlegum vettvangi eða hér heima fyrir íslenskum dómstólum.“

Síðan bætir þingmaðurinn við, með leyfi forseta:

„Þegar heildarmyndin er skoðuð tel ég að ekki sé hægt að komast að annarri niðurstöðu en að vel hafi verið haldið á íslenskum hagsmunum í þessu máli.“

Hvers er þingmaðurinn að vísa til þarna? Það er jú hið svokallaða Memorandum of Understanding, þ.e. yfirlýsing íslenskra stjórnvalda (Gripið fram í.) um vilja til að standa við Icesave-skuldbindingarnar (Gripið fram í.) sem fólu í sér á þeim tíma 6,7% vexti, (Gripið fram í.) þriggja ára greiðsluskjól og 10 ára lánstíma. Þetta var hv. þm. Bjarni Benediktsson, núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, tilbúinn að fallast á á sínum tíma og talar síðan með þeim hætti sem hann gerir hér nú og spyr: Hvað gerist ef við veljum að hafna pólitískum afarkostum?

Með öðrum orðum, þingmaðurinn leggur til að hér verði bara látið reka á reiðanum og að við sjáum bara til hvað gerist, sendum bara skipið óhaffært af stað og sjáum til hvað gerist. Þetta er óábyrgur málflutningur.