138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:53]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Ég held nefnilega að þarna liggi fyrir stóri misskilningurinn í málinu. Það hefur enginn af hálfu ríkisstjórnarinnar gert gangskör að því að fara utan og kynna málstað Íslendinga. Getur verið að alþjóðaumhverfið hafi kannski bara aðra sýn á málin en hv. þingmaður gefur sér að það hafi? Eru málin til umræðu í Bretlandi? Nei. Átta Hollendingar sig á því að hugsanlega eigi almenningur ekki að borga? Jú, vegna hvers? Það var hollenskur banki að fara á hausinn og menn átta sig á því núna hvernig innstæðutryggingarsjóðurinn á að virka, ekki að almenningur eigi að borga brúsann.

Hv. þingmaður hélt eftirfarandi fram í ræðu þegar fyrirvararnir voru samþykktir, með leyfi forseta:

„Það er Alþingi sem setur þessa fyrirvara og það er Alþingi sem mun fylgja þeim eftir. Við treystum á að þeir haldi og höfum fullvissu fyrir því.“

Hvað gerðist eftir þetta? Var þetta bara bull hjá hv. þingmanni? Þegar menn tala um að þessi leynigögn hafi verið bara svona og svona — nú, það var hvorki meira né minna en eitt stykki Settlement Agreement inni í þessum leyniskjölum sem fyrirvari Ragnars H. Halls byggði m.a. á. Og, ef við höldum aðeins lengra: Hagsmunir Íslendinga upp á tugi ef ekki hundruð milljarða … (Gripið fram í.) Ekki almenningur, og það er það sem málið snýst um. Það getur vel verið að ríkisstjórnin hafi öll þessi gögn en við sem erum lýðræðislega kjörin hljótum að gera kröfu um að öll gögn varðandi þetta mál séu gerð opinber. (ÞSveinb: Hvernig var það þegar Framsóknarflokkurinn tók ákvörðun um stuðning við Íraksstríðið, hv. þm. Höskuldur Þór Þórhallsson?) Er það ekki sanngjarnt? (Gripið fram í.)

(Forseti (UBK): Forseti vill ítreka þá beiðni forseta að menn láti af því að eiga í samræðum við þá sem eru hér í ræðustól.)

Virðulegi forseti. (ÞSveinb: … virðulegi forseti.) (SDG: Frábært svar, frábært svar.) Þegar menn þrýtur rök fara þeir að bera fyrir sig (Forseti hringir.) einhverjar svona asnalegar fullyrðingar eins og koma frá hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur.