138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:56]
Horfa

Anna Pála Sverrisdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef setið hér í dag undir umræðum um þetta blessaða Icesave-mál og hafa nokkrar spurningar kviknað í huga mínum við málflutning stjórnarandstöðunnar, m.a. þessi: Telur stjórnarandstaðan að Íslendingar sitji einir við borðið í þessari deilu? Það væri afskaplega þægilegt ef svo væri. Smáfréttaskot: Icesave snýst ekki um lagaleg rök, þessi milliríkjadeila snýst um pólitískan veruleika sem við Íslendingar erum núna að fást við, ekki um lagalega skyldu eða siðferðislega skyldu, eins og hv. þm. Höskuldur Þór Þórhallsson talaði um hér áðan.

Mér finnst eins og það sem vantar upp á hjá stjórnarandstöðunni sé einfaldlega að sjá skóginn fyrir trjánum og þau verkefni sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir. Mig langar að spyrja hv. þm. Höskuld Þór: Telur hann að Icesave sé stærsta málið sem íslenska ríkisstjórnin stendur frammi fyrir og telur hann að það sé eina málið? Mér hefur stundum fundist það af málflutningi stjórnarandstöðunnar. Er hægt að taka það úr samhengi við annað sem Ísland fæst við núna? Getur Ísland enn þá hagað sér eins og við höfum hernaðarlegt mikilvægi og gengið fram í krafti þess að Bretar hafi einfaldlega ekki pólitíska aðstöðu til þess að neita okkur?

Svo vil ég í lokin koma inn á evrópska regluverkið sem stjórnarandstöðunni hefur orðið tíðrætt um. Það er vissulega þannig að við störfuðum samkvæmt evrópska bankaregluverkinu en engu að síður stöndum við mun verr en aðrir af því að við stóðum okkur verr í því en aðrir að beita þessu regluverki. Að koma hérna upp trekk í trekk og kenna evrópska regluverkinu um ófarir Íslendinga er svolítið eins og að fá bíl í 17 ára afmælisgjöf frá mömmu, keyra á ljósastaur og kenna síðan mömmu um.