138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:04]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég tel svona miðað við aðstæður hafi umræðan verið málefnaleg hér í dag. Ég tel að miðað við hitann sem verið hefur í þessu máli hafi menn nú haldið sig nokkuð vel við jörðina. Ég held að það sé ekki rétt að halda sig endilega við söguna eða hvernig þetta mál er komið í þessa stöðu. Ég held að við eigum bara að velta fyrir okkur: Er það rétt eða rangt hjá okkur að samþykkja það frumvarp sem liggur hérna fyrir?

Allt er þetta mál flókið og það er háski á báðar hendur. Það er háskaleikur, hvort sem við samþykkjum þetta frumvarp eins og það er og þar með þennan samning eins og hann er breyttur orðinn. Og það er líka háskalegt að taka hina leiðina og fara með málið eða reyna að knýja það með einhverjum hætti fyrir dómstóla. Hér hafa menn talað, t.d. hv. síðasti ræðumaður sem flutti ágæta ræðu og sömuleiðis formaður Sjálfstæðisflokksins, eins og það væri engin aukin áhætta sem fælist í því að fara þá leið sem þeir kalla dómstólaleiðina. En það er bæði bein og óbein áhætta sem í því er fólgin.

Hin beina áhætta felst í því að ef við færum með þetta fyrir dóm gæti það gerst sem formaður Sjálfstæðisflokksins lýsti svo vel hér í ræðum sínum undir lok nóvember og í byrjun desember í fyrra, að niðurstaðan yrði jafnvel verri en beinlínis sú lágmarksupphæð sem við þurfum að greiða í dag. Sömuleiðis gæti líka fylgt þeirri leið að gert yrði harðara áhlaup á neyðarlögin t.d. með tilstyrk öflugra ríkisstjórna en raunin er núna. Það eru hinar beinu hættur sem tengjast því að fara dómstólaleiðina.

Hinar óbeinu sem tengjast því liggja í því að það mundi leiða til mikilla deilna við alþjóðasamfélagið og það mundi gera það að verkum að erfitt væri fyrir okkur t.d. að fá þá stöðu gagnvart fjármagnsmörkuðum heimsins að við yrðum aftur þokkalega lánshæf og fengjum fjármagn til þess að byggja upp fyrirtæki okkar og atvinnulíf. Þetta eru hætturnar sem eru fólgnar í því að fara þá leið. Þær ber að meta andspænis þeim háska sem líka er fólginn í því að axla þessar greiðslur og þessar skuldbindingar sem við stjórnarliðarnir leggjum í reynd til að menn geri núna.

Ég get hins vegar gert þá játningu að mér er miklu rórra yfir því núna en mér var fyrir þremur vikum og miklu rórra en mér var í sinni 5. júní í sumar. Ástæðunnar ber m.a. að leita hjá Alþingi. Ég verð að segja það við þingmenn, ekki síst stjórnarandstöðunnar og einkum og sér í lagi þingmenn Framsóknarflokksins, að jafnvel þótt þeim finnist málið vont verða menn að læra að þekkja sína eigin sigra. Mér er rórra vegna þess að það eru fyrirvarar sem þingið setti sem gera málið miklu betra en það var og vegna þess að það frumvarp sem hér liggur fyrir að mínu viti, eins og ég reyni að rökstyðja hér á eftir, heldur þeim fyrirvörum. Að mínu viti styrkir það að sumu leyti og veikir að sumu leyti.

Mér er líka rórra vegna þess að ég tel að kostnaðurinn sem hugsanlega fellur á okkur sé í dag líklegur til þess að verða töluvert minni en menn héldu fyrir jafnvel tveimur mánuðum. Ástæðan er sú að búið er að gera samninga milli nýja og gamla Landsbankans. Það er búið að meta eignirnar sem eru í þrotabúinu með meiri nákvæmni og það er niðurstaða sem menn geta auðvitað deilt um, sem bendir til þess að endurheimturnar verði ekki 75% heldur 90%. Ég tel að þær verði meiri. Ég tel að hægt sé að færa rök að því núna, en það hefur aðeins komið fram í máli hæstv. fjármálaráðherra, að vel sé hægt að færa rök að því að eignirnar eins og þær eru metnar núna slái hátt í það að geta þakið 95% af höfuðstólnum. (PHB: 110%.)

Ég tel sömuleiðis að vegna þess að það er batnandi efnahagsástand í heiminum séu líkur á því að okkur takist að afsetja þessar eigur fyrr á þessu sjö ára skeiði sem við höfum en menn ætluðu hér fyrir nokkru síðan. Það þýðir að vaxtabyrðin verður minni. Þetta gerir það að verkum að mér er hvað þetta varðar miklu rórra í sinni. Hvað er það sem ég tel að við vinnum með því að ljúka málinu? Ég tel að þetta sé ákveðinn tappi sem við tökum þarna úr þróuninni sem hefur verið dálítið stöð núna, þetta sé lykill að því að við getum geyst áfram í efnahagsuppbyggingu okkar.

Mér finnst það ekki vera réttlátt eða réttmætt eða í takti við raunveruleikann þegar hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar tala eins og hér verði enginn hagvöxtur á næstu árum. Rök þeirra byggja að mörgu leyti á því að ekki verði hagvöxtur og þess vegna muni okkur ekki einu sinni verða kleift að greiða vextina sem við þurfum að greiða. Ég tel að þetta sé fráleit vitleysa og það sé ekkert í umhverfinu sem bendi til þessa. Þetta er ákveðin áhætta samt sem áður sem við þurfum að taka tillit til. Ég segi á móti að ef þessi þróun yrði og þessi staða kæmi upp, eins og hv. þm. Pétur Blöndal hefur margsinnis nefnt í tölum sínum, eru ýmsir varnaglar í samningnum og í frumvarpinu og hinni pólitísku yfirlýsingu ráðherranna sem vinna með okkur.

Endurskoðunarákvæði í hinum upphaflega samningi sem mjög hefur verið gagnrýnt hér, mundi t.d. virkjast við slíkar aðstæður, ef enginn hagvöxtur væri.

Í öðru lagi tel ég að sú yfirlýsing sem kemur fram af hálfu ráðherranna þriggja um viðræður, þar sem íslenski ráðherrann hefur óskoraðan rétt til þess að krefjast viðræðna þegar hann vill af hvaða tilefni sem er ef hann getur sýnt fram á að aðstæður hafa breyst, mundi sömuleiðis virkjast. Og það væri mjög erfitt fyrir nokkra þjóð að standa gegn þessu tvennu, annars vegar hinni pólitísku, sameiginlegu yfirlýsingu ráðherranna þriggja og því sem segir í endurskoðunarákvæðinu. Þetta gerir það að verkum að ég held að staða okkar sé að ýmsu leyti sterkari til þess að takast á við þetta „scenario“ sem menn hafa verið að draga upp.

Ég sagði áðan að menn mættu ekki tapa sjónar á sínum eigin sigrum. Framsóknarflokkurinn greiddi atkvæði, ef ég man rétt, gegn breytingartillögunum í sumar. Hann greiddi atkvæði gegn frumvarpinu sjálfu. Ég held samt sem áður að málflutningur og harka Framsóknarflokksins, harkan í Indefence-hópnum og fundirnir hérna fyrir utan hafi skipt máli vegna þess að það breytti vígstöðunni fyrir Ísland til hins betra. Þessu finnst mér að þeir sem tala hérna fyrir hönd Framsóknarflokksins og stjórnarandstöðunnar megi ekki gleyma og ekki tapa sjónar á.

Ef við lítum síðan á fyrirvarana sem var að finna í lögunum sem voru samþykkt í sumar og berum þá saman við það sem liggur fyrir í frumvarpinu er niðurstaða mín eftirfarandi:

Ég sé ekki betur en Brussel-viðmiðin séu inni í hinum nýja samningi og það styrkir ef í harðbakkann slær. Það styrkir ef við þurfum að virkja endurskoðunarákvæðið og ef við þurfum að virkja viðræðuákvæðið í hinni sameiginlegu pólitísku yfirlýsingu ráðherranna þriggja. Þess vegna skiptir það miklu máli.

Friðhelgisréttindin samkvæmt Vínar-samkomulaginu eru inni. Það þýðir að hvað sem á dynur mun það ekki gerast sem stjórnarandstaðan óttaðist, að íslenska stjórnkerfið gæti ekki haldið áfram að starfa vegna þess að búið væri að ganga að eigum þess. Sömuleiðis er það alveg ljóst að samkvæmt þessu er ekki hægt að ganga að þeim eigum sem Seðlabanki Íslands kann að eiga í útlöndum.

Jafnframt liggur það ljóst fyrir að fyrirvarar varðandi náttúruauðlindirnar eru líka inni. Þá eru þrír fyrirvarar eftir. Það er efnahagsfyrirvari — ég hef alltaf litið svo á að hann væri í reynd þríþættur. Í fyrsta lagi samkvæmt lögum Alþingis væru vextirnir undir greiðsluhámarkinu. Í öðru lagi væri klárt greiðsluhámark. Og í þriðja lagi má halda því fram miðað við málflutning stjórnarandstöðunnar hér í umræðunni í sumar að hún hafi litið svo á að það fælist líka í hinum efnahagslega fyrirvara að það væri engin ábyrgð á því sem væri eftir 2024. Hv. formaður fjárlaganefndar hefur mótmælt því fyrir sitt leyti. Ég sagði í utanríkismálanefnd að ég liti ekki svo á. Og forsætisráðherra sagði hér í umræðunni að ef sú stæða kæmi upp mundi það leiða til viðræðna.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé frávik í þessu frumvarpi að því er vextina varðar. Þar er afturhvarf frá lögunum eins og þau voru samþykkt. Þá verðum við að meta: Er staðan þannig að það sé hættunnar og háskans virði að taka þá áhættu? Ég tel það. Ég tel að miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir um virði eignanna og miðað við hvernig þróunin er að verða í heiminum tel ég að það séu mjög litlar líkur — þær eru samt fyrir hendi — að vaxtagreiðslurnar færu einhvern tímann yfir greiðsluhámarkið. Ég tel hins vegar að það séu mjög hverfandi líkur á því að eitthvað standi eftir árið 2024. Ég tel líka að þetta þing og þeir sem véluðu um efnahagsfyrirvarana og sendu þá til útreiknings upp í Seðlabanka hafi gefið sér þá forsendu að skuldin yrði öll greidd upp. Í minnisblaði Seðlabankans frá 13. ágúst voru raktar þær forsendur sem bankinn fékk frá fjárlaganefnd. Ein af þeim var að skuldin yrði greidd upp fyrir 2024 miðað við efnahagsspár Seðlabankans og einmitt þess vegna voru mörkin hækkuð svolítið til þess að tryggja það frá því sem var hin upphaflega tillaga. Þarna er því um ákveðinn háska að ræða og það er rétt hjá þeim sem hér hafa talað að því er vaxtagreiðslurnar varðar að hinn efnahagslegi fyrirvari er veikari en staðan hefur að öðru leyti styrkst.

Varðandi dómstólaleiðina tel ég að eins og er búið um hana núna sé dómstólafyrirvarinn sterkari en áður. Mig bresta einfaldlega skilningarvit til þess að skilja að þar hafi einhver réttur verið tekinn frá Alþingi af því að það stendur ekki í frumvarpinu að ef tiltekinn atburður verður geti Alþingi einhliða breytt ríkisábyrgðinni. Herra trúr, Alþingi er fullvalda og fullveðja. Alþingi getur hvenær sem það telur að það hafi siðferðileg og þjóðarleg rök breytt sínum lögum. (GBS: Ekki ef annað stendur í samningnum.) Í frumvarpinu er hinn lagalegi fyrirvari alveg klár, hann er skýr. Það sem hefur gerst núna í fyrsta skipti er þó að það er viðurkenning í hinni sameiginlegu pólitísku yfirlýsingu ráðherranna þriggja á því að þeir gera sér grein fyrir þessu. Í það er hnýtt tveimur ákvæðum í yfirlýsingunni um viðræður af hvaða tilefni sem er.

Eitt af þeim tilefnum, svo ég lýsi því nú bara yfir sem ráðherra í ríkisstjórninni, gæti verið það að ef dómur fellur einhvers staðar sem bendir til þess að greiðsluskuldbindingarnar sem við höfum axlað sé umfram það sem sá dómstóll telur, er það tilefni til þess að taka þetta mál upp. Hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur haft veruleg áhrif á framvindu málsins og afsögn hans átti verulegan þátt í því að þetta viðræðuákvæði náðist inn í viljayfirlýsinguna og sömuleiðis að hinn lagalegi fyrirvari, sem við köllum dómstólafyrirvarann, er eins og hann er núna. Hv. þingmaður hefur sagt það fyrir sitt leyti alveg klárt, og ætla ég honum það ekki að hann verði kannski ráðherra til áttræðs eða níræðs, að ein af þeim leiðum sem íslenska ríkið gæti farið ef þessi staða kæmi upp, ef dómur félli og ekkert kæmi út úr viðræðum, væri þessi: Íslenska þjóðin mundi einfaldlega hætta að borga. Hvaða leiðir eiga þá viðsemjendur okkar í þeirri stöðu? Jú, tvær: Að fara með málið fyrir dóm, og þá bendir hv. þm. Ögmundur Jónasson á að það liggur fyrir dómsfordæmi við þær aðstæður. Varla yrði það álitlegur kostur. Með öðrum orðum, þeir yrðu nauðbeygðir til þess að ganga til samninga.

Því segi ég það að með þessum pólitíska umbúnaði, þessum lagalega fyrirvara í frumvarpinu er málið út frá pólitísku sjónarhorni sterkara en áður. Þetta er nú mín skoðun.

Ég gæti svo haft töluvert lengra mál um hinn svokallaða Ragnars H. Halls-fyrirvara. Ég bendi á það þegar menn tala hér um EFTA-dómstólinn að í fyrstu setningu í viðkomandi málsgrein 4. gr. laganna frá því í sumar er vísað í EES-samninginn. Af hverju? Af því menn vísa í EES-reglurnar. Og í greinargerðinni þar sem þetta er skýrt er bókstaflega talað um EFTA-dómstólinn. Munurinn á Ragnars H. Halls-ákvæðinu núna og eins og það var áður er að ef slitastjórn bankans kemst að þeirri niðurstöðu og því er ekki mótmælt að það eigi að vera ofurforgangur fyrir tryggingarsjóðinn, eða ef dómstóll kemst að þeirri niðurstöðu og það er ekki í ósamræmi við EFTA-dómstólinn, fer það sjálfkrafa inn í samninginn.

Mín niðurstaða er þess vegna sú: Báðar aðferðirnar eru háskalegar. Ég tel að það sé minni háski fólginn í því að samþykkja þetta frumvarp. (Forseti hringir.)