138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:22]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. veit ofurvel að ég er bara starfsmaður á plani og ræð engu í þessari ríkisstjórn nema örlitlu í utanríkisráðuneytinu. En hins vegar er ég þeirrar skoðunar að þingið eigi að ráða þessu sjálft. En ég verð samt í fullri vinsemd að segja það við hv. þingmann sem tilheyrir Sjálfstæðisflokknum að mér hefur ekki fundist sem Sjálfstæðisflokkurinn hafi rétt sáttarhönd í þessu máli. Þegar málið kom fyrst nálægt núverandi búningi til kynningar var það Sjálfstæðisflokkurinn sem sagði eiginlega án þess að hafa séð málið að þetta væri hið versta mál. (GÞÞ: Ég get rifjað það upp.) Ekki man ég það nú svo gjörla, enda tekinn að eldast. (GÞÞ: Hvað vilt þú?) En málið er einfaldlega þannig að ég set mig ekki upp á móti þeirri vinnuaðferð sem þingið kýs að hafa, hef aldrei gert það.