138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég deili mörgum af skoðunum hans varðandi þennan samning og það sem hér er lagt á borð fyrir okkur. Ég held að það sé alveg hárrétt sem fram kom í ræðu þingmannsins, það er verið að þynna út það sem var samþykkt hér í ágúst og ég mun í framhaldinu spyrja hann spurninga varðandi það. Ég held að það sé alveg ljóst að efnahagslegum, lagalegum fyrirvörum er í rauninni snúið á hvolf og þeir eru gerðir þannig, og hv. þingmaður leiðréttir mig ef ég fer með rangt mál, að það er búið að teikna þá í skötulíki inn í svokallaðan viðaukasamning sem um munu gilda bresk lög. Mun þá væntanlega reyna á hann fyrir breskum dómstólum þar sem fjallað er um samninginn samkvæmt svokölluðu „common law“. Ef þetta er rangt væri ágætt ef þingmaðurinn gæti leiðrétt það.

Annað sem mig langar að biðja þingmanninn um, af því að ég veit að hann hefur yfirgripsmikla þekkingu á þessum efnahagslegu fyrirvörum, er hvort hann geti í tveimur, þremur orðum sagt mér frá því hver mesta hættan er sem hann hefur rekið sig á í þessu. Hvort það er sú hætta að búið er að taka fyrirvarana og setja þá inn í samning sem um gilda lög eða hvort það er einhver veigameiri breyting sem búið er að koma fram núna á þeim stutta tíma sem við höfum séð þetta.

Ég vil hins vegar taka fram í þessu andsvari mínu við hv. þingmann að ég vona að við fáum nú á næstunni að fara yfir þetta mál mjög vandlega því að ég hef þá trú að það muni koma fram mjög gagnrýnin og yfirgripsmikil umfjöllun utan úr samfélaginu um þennan nýja samning og það er mikilvægt fyrir okkur þingmenn að fylgjast vel með því.