138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:43]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U):

Virðulegi forseti. Ég vildi óska að ég gæti tekið undir það með hæstv. utanríkisráðherra að sú umræða sem farið hefur fram um þetta margbölvaða Icesave-mál hafi verið málefnaleg. Þessi umræða að mestu leyti kemur mér helst til að hugsa að hér fari fram Íslandsmeistaramót í sparðatíningi.

Ég ætla ekki að eyða dýrmætum ræðutíma í að teygja lopann hér um sekt og ábyrgð í þessu máli. Mér nægir það fullkomlega að milli 60 og 70% þjóðarinnar virðast enn þann dag í dag vita nákvæmlega hvar hin pólitíska sekt og pólitíska ábyrgð liggur, þrátt fyrir það moldvirði sem magnað hefur verið upp í kringum þetta mál.

Ég ætla að tala hér um pólitískan veruleika eins og hann blasir við mér í dag.

Forsaga málsins er stutt, eða getur verið stutt ef maður vill segja söguna á þann hátt.

Upp kom ágreiningur milli Breta og Hollendinga annars vegar og Íslendinga hins vegar. Upp kom deilumál sem augljóslega þarf að finna lausn á. Í júníbyrjun kynntist ég þeirri lausn sem ríkisstjórn Íslands ætlaði að leggja fyrir þjóðina. Þá var fluttur hingað fangaklefi, smíðaður af Bretum og Hollendingum, að vísu með íslenskri sérfræðiráðgjöf — fangaklefi, skuldafangelsi, sem Alþingi Íslands átti að samþykkja að leiða þjóðina inn í. Í stað þess að hafna því umsvifalaust og á skömmum tíma að láta leiða sig nauðuga inn í þetta skuldafangelsi og leita heldur sanngjarnar lausnar á annan hátt var ákveðið, og Alþingi lét telja sig á það, að ganga inn í þennan klefa, loka á eftir sér hurðinni, sitja þar í allt sumar við hástemmdar pælingar um innanhússarkitektúr, hvernig væri hægt að gera þennan fangaklefa að mannabústað. Settir voru fyrirvarar áður en farið verður í að reisa þetta fangelsi og áður en þjóðin verður sett í það. Settir voru fyrirvarar um hversu þykk dýnan sem maður á að liggja á á að vera, um að það verði loftræsting í klefanum svo við drepumst ekki á fyrstu dögunum, hugsanlega rennandi vatn og einhver grundvallarþægindi áttu að vera í þessum klefa. Þetta eru svokallaðir fyrirvarar við Icesave-samning.

Eftir að Alþingi hafði setið yfir þessu í allt sumar voru teikningarnar með þessum breytingum sendar aftur til höfunda sinna í Bretlandi og Hollandi og þeir hæversklega spurðir að því hvort þetta væri í lagi með dýnuna og rennandi vatnið og núna er svarið komið:

Látum vera með vatnið og hugsanlega loftræstinguna, en dýnan verður ekki eins þykk og mjúk og þið viljið og þar að auki er eitt smáatriði í þessu sem við getum ómögulega samþykkt, það eru einhverjar hugmyndir um að refsivistinni eigi að ljúka á einhverju ári. Refsivistin verður bara eins löng eins og mönnum dettur í hug á hverjum tíma og við skulum ekki binda það neitt niður.

Þetta er hinn pólitíski veruleiki sem við stöndum frammi fyrir.

Við það að hanna þessa draumainnréttingu í fangaklefann erum við búin að sitja af okkur tækifærið til að neita að fara inn í þennan klefa. Það er tómt mál að tala um að þriðji valkosturinn, sem ég hef talað fyrir áður hér úr þessum stól, verði nýttur. Þriðji valkosturinn er sá að neita þessum samningi og láta það fylgja sögunni að við viljum leita lausnar á þessu máli og jafnvel að fá einhverja þjóð, til að mynda Frakka, til þess að miðla málum í deilunni þannig að ásættanleg lausn fyrir alla aðila finnist og enginn verði dæmdur í skuldafangelsið.

Þetta tímabil er liðið. Við eigum ekki þennan valkost lengur. Við stöndum frammi fyrir tveimur kostum og þeir eru báðir vondir. Eins og sagt var í Rómarborg til forna: Tertium non datur, þriðji kosturinn er ekki fyrir hendi. Núna stendur upp á okkur að segja já eða nei. Það er ekki flóknara en það.

Ég vil vekja athygli ykkar á því að aðeins einn þingmaður á Alþingi greiddi atkvæði gegn skuldafangelsinu í öllum þess myndum, hvort sem það var með dýnu, rennandi vatni eða loftræstingu. — Einn þingmaður. Það er sá sem hér stendur. (Gripið fram í.)

Hins vegar er hinn ískaldi pólitíski veruleiki sem við okkur blasir þannig að við erum nú þegar stödd inni í þessum klefa. Við komumst ekki til nauðsynlegra verka. Íslenskt þjóðfélag liggur í rúst. Það stendur upp á okkur að reisa það úr rústunum. Ég er ekki að tala um að slá skjaldborg um fjölskyldur í landinu, það hvarflar ekki að mér að við höfum þrek eða kunnáttu til að gera það, en við getum reynt að reisa eitthvert skjól fyrir fjölskyldurnar í landinu þannig að lífið á komandi ári og næstu árum verði bærilegra en ella.

Verkefnin blasa við úr öllum áttum. Vaxtabyrði heldur atvinnulífinu í ísköldum heljargreipum. Fjölskyldur og einstaklingar þjást í klóm verðtryggingar, sem við skulum muna að var upprunalega lyf sem var gefið við verðbólgu — lyf sem hefur verið gefið svo lengi að aukaverkanirnar af því eru orðnar verri en verðbólgan sjálf.

Verkefnin blasa við okkur alls staðar. Við getum ekki reynt á þolinmæði þjóðarinnar lengur með því að halda áfram sparðatíningi um þau tækifæri sem við sátum af okkur í sambandi við lausn þessa deilumáls við Breta og Hollendinga. Við getum kvartað og kveinað undan því að þeir hafi sett á okkur hryðjuverkalög, beitt okkur efnahagslegum þvingunum gegnum þá vafasömu stofnun, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það breytir engu. Staðreyndin er sú að við erum í því sem á fræðimáli heitir „í djúpum skít“. Við þurfum að komast upp úr þeirri for sem við erum í og höfum sumpart lent í vegna ofríkis og offars glæpamanna og sumpart vegna heimsku, þröngsýni og seinagangs okkar sjálfra.

Það er kominn tími til að klára þetta mál. Það verður ekki klárað með neinni reisn úr því sem komið er. En það er kominn tími til að ljúka þessu máli og snúa sér að þarfari verkum en þessu dæmalausa Icesave-máli sem verður okkur til skammar um ókomin ár. Við skulum þá reyna að bjarga því sem eftir er af sóma okkar með því að koma því frá og ganga til annarra og mikilvægari verka.