138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Ég er nú búinn að velta fyrir mér hver boðskapur hans er í raun í þessari ræðu. Hann er búinn að fræða okkur um það sem er rétt að hann einn greiddi atkvæði á móti öllu þessu „bixi“ þegar við vorum að fjalla um þetta hér í þinginu. En hann studdi hins vegar á sínum tíma, ef ég man rétt, aðildarumsókn að Evrópusambandinu, aðildarumsókn að því félagi sem hann gagnrýnir væntanlega mjög mikið fyrir að kúga Íslendinga, kúga þjóðina til þess að greiða þær skuldir sem hér um ræðir. Ég velti því svolítið fyrir mér eftir að hafa hlustað á ræðu hv. þingmanns hvort það sé virkilega þannig þegar hann talar um tvo kosti, já eða nei, að hann sé farinn að hallast að því að eftir allt sem sagt hefur verið hér í þinginu, eftir að hafa greitt atkvæði á móti öllu því sem hér var lagt fyrir okkur, að það kitli hann nú að greiða atkvæði með því og samþykkja þennan samning sem nú liggur fyrir. Það væri ágætt ef hv. þingmaður gæti svona gefið okkur aðeins skýrara „hint“ um það hvort það sé svo að hann telji að staðan sé þannig að við eigum enga aðra kosti en að samþykkja þann samning sem fyrir okkur er lagður.

Ef svo er erum við nú aldeilis komin í hring þegar helsti talsmaður þess að fara ekki þá leið sé orðinn hugsanlega talsmaður þess að ganga þá leið. Mig langar að spyrja að þessu því að ég held að nú þurfi Alþingi á öllum þeim að halda sem mögulega geta til þess að koma í veg fyrir að sá samningur sem hér liggur fyrir verði samþykktur eins og hann lítur út. Það kann vel að vera að við eigum enga aðra kosti á endanum en að semja um eitthvað, en eins og samningurinn lítur nú út er það algjörlega óásættanlegt. Ég deili þeirri fyrri hugsun sem þingmaðurinn hafði að það má ekki samþykkja neitt í þessu því að það væri glapræði fyrir þjóðina. Við skulum sjá hvað gerist (Forseti hringir.) föstudaginn 23. október. Það gerist ekki neitt.